Gasmengun getur haft áhrif á daglegt líf fólks

Mynd með færslu
 Mynd: Björn Oddssson - Almannavarnir
Gasmengun er fylgifiskur eldgosa og nálægð elstöðvanna á Reykjanesskaga við byggð getur haft áhrif á daglegt líf fólks, ef vissar aðstæður skapast. Þá er mikilvægt að vita hvernig á að bregðast við og bera sig að svo að gasið valdi fólki ekki tjóni.

Mælitæki sem mæla styrk SO2  er að finna á nokkrum stöðum í grennd við eldstöðvarnar og víða á höfuðborgarsvæðinu. Hægt er að fylgjast með loftgæðum nánast í rauntíma á vefnum loftgæði.is. Mælarnir sem þar er að finna á korti mæla mismunandi lofttegundir í andrúmsloftinu. Þar eru birtir litakóðar fyrir ýmis loftmengunarefni. Hver litur gefur til kynna möguleg heilsufarsáhrif hjá bæði heilbrigðum einstaklingum og viðkvæmum hópum, svo sem börnum og fólki með undirliggjandi lungna- eða hjartasjúkdóma. 

Litakóðarnir styðjast við mörk í íslenskum reglugerðum. Heilsuverndarmörk fyrir klukkustundarmeðaltal á styrk brennisteinsdíoxíðs (SO2) í  andrúmsloftinu eru 350 µg/m3. Litakóðinn fer því á rautt fari styrkur SO2 yfir 350 µg/m3. Litakóðarnir miðast almennt við langvarandi útiveru og ekki eru ráðlagðar takmarkanir á útiveru viðkvæmra hópa í þessum litakóðum fyrr en komið er á rautt. Sem dæmi má nefna að mengun vegna brennisteinsdíoxíðs fer á appelsínugult þegar styrkur SO2 er milli 200-350 µg/m3. Á þessu styrkbili er ekki gert ráð fyrir takmörkunum á útisvist en sagt frá því að viðkvæmir einstaklingar geti fundið fyrir einkennum við þann styrk.

Þessir almennu litakóðar gera ekki greinarmun á loftmengun sem er rétt yfir heilsuverndarmörkum eða margfalt yfir heilsuverndarmörkum. Þannig gerir þessi almenni litakóði engan mun á ráðleggingum hvort sem styrkur SO2 er 350, 3.500 eða 35.000 µg/m3. 

Á vef Umhverfisstofnunar má sjá töflu og fróðleik þar sem tilgreint er hvað ber að varast ef styrkur brennisteinsdíoxíðs fer upp fyrir vissan styrk í andrúmsloftinu. Ráðleggingar í töflunni taka mið af því að fólk dvelji í aðstæðum þar sem loftgæði eru skert í 10 til 15 mínútur. Sé dvölin lengri má búast við meiri heilsufarsáhrifum. Tilgangur þessara leiðbeininga er m.a. að tryggja að dagleg starfsemi geti gengið sinn vanagang, eins og frekast er unnt, án þess að skaða heilsu fólks.

Eldgosið á Reykjanesskaga er ekki stórt miðað við önnur gos sem við þekkjum, en nálægð þess við þétta byggð veldur mörgum áhyggjum með tilliti til gasmengunar í byggð. 

Ekki mælst langvarandi hættuleg mengun ennþá

Hingað til hefur styrkur SO2 ekki oft farið yfir 350 µg/m3, en það hefur þó gerst í stöku mælingum í Vogum til að mynda. Ef styrkur SO2 fer mikið upp fyrir 0 er fólki ráðlaggt frá því að láta börn sofa úti í vagni. Í gær þegar varað var við gasmengun yfir höfuðborgarsvæðinu fór styrkur SO2 mest í 216 µg/m3 í Kópavogi og 247 µg/m3 í Norðlingaholti. Þær mælingar voru gerðar laust eftir hádegi í gær. Við Grensásveg mældist mest 181,0 µg/m3 síðdegis í gær. 

Stærstur hluti af SO2 gasi sem berst í efri öndunarvel frásogast í gegnum slímhúðina og skolast út með þvagi. Söfnun þess í líkamanum er lítil og skaði þess á innri líffæri hefur ekki verið lýst nákvæmlega.

„Þegar mengun er yfir heilsuverndarmörkum er því mikilvægt að anda rólega í gegnum nefið og forðast áreynslu. Börn eiga ekki að sofa úti í vagni þegar SO2 mengun er viðvarandi eða á meðan mengunartoppur varir og allir eiga að forðast áreynslu utan dyra. Viðkvæmir hópar ráðfæri sig við heilsugæsluna varðandi frekari ráðgjöf. Áhrif loftmengunar á heilsu eru háð þeim tíma sem fólk dvelur í menguninni. Ef dvalið er lengur en 10─15 mínútur í mengun má búast við meiri áhrifum á heilsu en taflan segir til um,“ segir í leiðbeiningum Umhverfisstofnunar. 

Langtímaáhrif SO2 mengunar

Rannsóknir benda til að langtímadvöl í SO2 menguðu andrúmslofti geti valdið þrálátum öndunarfæraeinkennum, svo sem hósta, nefrennsli og astma. Þá sýna margar rannsóknir að mengunin getur valdið vaxtarskerðingu hjá fóstrum og að börn fæðist fyrir tímann. Engin merki eru um að SO2 mengun geti valdið krabbameini og óljóst er hvort mengun geti valdið hækkuðum blóðþrýstingi og ófrjósemi.

Hægt er að varna loftmengun innandyra með nokkrum ráðum og bendir Umhverfisstofnun meðal annars á þessi ráð:

  1. Sléttfull teskeið (5gr.) af matarsóda er leyst upp í 1 lítra vatns.
  2. Bleytið klút t.d. viskastykki eða þunnt handklæði í þessari lausn. 
  3. Vindið mesta vatnið úr þannig að ekki leki. 
  4. Strengið klútinn með þvottaklemmum á þvottagrind eða sambærilegt.
  5. Stillið grindinni upp í því herbergi sem ætlunin er að hreinsa loftið í.
  6. Til að klúturinn haldi virkni sinni þarf hann að vera rakur og gott er að halda rakastiginu við með því að úða á hann vatni t.d. úr blómaúðabrúsa. 
  7. Við langvarandi mengun þarf að skola klútinn undir rennandi vatni tvisvar á dag og setja hann aftur í matarsódalausnina.