Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ferðamenn fyrirferðamestir í sóttkvíarhúsinu

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Stutt er í að sóttkvíarhúsið í Reykjavík fyllist og er nú leitað að öðru hóteli til viðbótar. Fólk fær enn ekki að fara út undir bert loft. Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa, segist viss um að heilbrigðisráðherra sýni því skilning að ekki verði hægt að leyfa öllum að viðra sig daglega. 

Fyllist í kvöld eða á morgun

Það eru 320 herbergi í sóttkvíarhúsinu við Þórunnartún, 250 þeirra eru í notkun og útlit fyrir að þau 70 sem eftir standa fyllist annað hvort í kvöld eða á morgun. „Þetta eru ferðamenn, þetta er fólk sem býr úti á landi, þetta er fólk sem býr í bænum en getur ekki verið í sóttkví heima hjá sér en að megninu til eru þetta ferðamenn, sýnist mér svona í fljótu bragði,“ segir Gylfi Þór. Í dag koma alls átta flugvélar til landsins, þar af tvær frá Ríga í Lettlandi og tvær frá Lundúnum. Gylfi segir að fækkað hafi í vélunum, því sé ekki víst að hótelið fyllist í kvöld. 

Til stóð að opna nýtt hótel í dag

Til stóð að opna nýtt sóttkvíarhús á Fosshótel Barón í dag en það gekk ekki upp. „Bara framkvæmdir í gangi sem ekki tókst að ljúka. Staðurinn er óhentugur fyrir okkur í bili þannig að við þurfum aðeins að líta í kringum okkur,“ segir Gylfi. Sjúkratryggingar leigja sóttvarnahús og eru með lista yfir hótel sem koma til greina. Það þarf að hafa hraðar hendur en ef ekki finnst nýtt hótel segir Gylfi hægt að hýsa fólk á hótel Rauðará sem hefur verið nýtt sem viðbót þegar farsóttarhúsið, Fosshótel Lind við Rauðarárstíg, fyllist. 

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Fosshótelið við Þórunnartún í Reykjavík gegnir hlutverki sóttkvíarhúss.

Útivistarleyfi háð aðstæðum

Í nýrri reglugerð sem tók gildi á föstudag er kveðið á um að allir fái að fara út daglega. Þetta hefur reynst Rauða krossinum strembið því fólk á hótelinu má ekki umgangast hvert annað vegna smithættu. Á hótelinu við Rauðarárstíg er bara einn inngangur fyrir þá sem skrá sig inn og út, og það þarf að sótthreinsa lyftu og fleira á milli hópa. 

Treystir á skilning heilbrigðisráðherra - reglugerð gæti breyst

Rauði krossinn og Sjúkratryggingar leggja til að fólk óski eftir leyfi til útivistar, það velti svo á aðstæðum hverju sinni hvort það leyfi verði veitt. „Hefurðu áhyggjur af því að heilbrigðisráðherra synji þessari tillögu ykkar? Nei ég held ekki, heilbrigðisráðherra kom og skoðaði aðstæður hér í gær og sér og skilur umfang starfsins þannig að ég held hún muni bara taka til í okkar tillögur.“

Þarf þá að breyta reglugerðinni? „Nú er ég ekki löglærður maður en já, ég myndi telja að það þyrfti að breyta reglugerðinni, en vonandi fer þetta nú að skýrast.“