Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Annasöm vika framundan í bólusetningum

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Óskar Reykdalsson forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er bjartsýnn að bólusetning 280 þúsund Íslendinga náist á tilsettum tíma. Hann sagði í kvöldfréttum sjónvarps að framundan væri annasöm vika í bólusetningum.

Óskar segir að á þriðjudaginn sé búist við að bólusetja allt að fimm til sex þúsund manns en nú er verið að kalla til heilbrigðisstarfsólk utan heilbrigðisstofnana og yngri en sjötuga með undirliggjandi sjúkdóma. „Það felst mikið öryggi í því að bólusetja alla.“

Að  sögn Óskars ganga bólusetningar hratt, möguleiki sé að sprauta yfir þúsund manns á klukkutíma í Laugardalshöllinni. Hver einasti dropi bóluefnis sé notaður.

Hann ítrekar að þrátt fyrir bólusetningu beri alltaf að gæta að persónubundnum sóttvörnum. „Þó að við séum bólusett er alltaf möguleiki á að smitast, þetta er ekki búið.“