Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vakta gosstöðvarnar frá hádegi fram til miðnættis

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Lögreglan og björgunarsveitir verða með vakt við gosstöðvar frá hádegi í dag eins og til stóð. Opnun fjórðu sprungunnar í nótt breytir engu þar um.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Þar segir eftirfarandi: 

Í dag verður gossvæðið vaktað af lögreglu og björgunarsveitum frá kl. 12 til kl. 24. Lokað verður inn á svæðið kl. 21. Rýming hefst kl. 23 og verður lokið fyrir miðnætti.

Þessi áætlun gæti þó breyst með skömmum fyrirvara. Hraunið hefur stækkað mikið eftir að nýjar sprungur opnuðust á annan dag páska og síðan þá hafa tvær sprungur opnast til viðbótar, seinast í nótt. Hjálmar Hallgrímsson lögreglumaður og formaður bæjarráðs í Grindavík segir í samtali við fréttastofi að helstu áhyggjur viðbragðsaðila snúi að því að svæðið sé sífellt að stækka og erfiðara sé að hafa yfirsýn yfir það. Þegar veðráttan sé þannig að vindar breyti snarlega um átt og hægviðri eins og er í dag þá sé hætt við að fólk fái hættulegar lofttegundir yfir sig.  Því þurfi fólk að fara varlega og taka hættuna alvarlega.

 

Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að þeir sem ætla sér inn á svæðið fyrir kl. 12 í dag og á sunnudag gera það á eigin ábyrgð.

Svæðið er hættulegt og þá ekki síst vegna lélegra loftgæða. Lögregla getur án fyrirvara lokað fyrir alla umferð inn að gosstöðvunum. Gert er ráð fyrir því að bannsvæði við eldstöðvarnar verði markað á korti sem verður birt síðar í dag. Svæðið er ekki fyrir lítil börn, þau eru viðkvæm og nær jörðinni en þeir sem eldri eru og því útsett fyrir skaðlegum lofttegundum. Þeir sem klæða sig ekki vel hafa ekkert inn á svæðið að gera.

Búast má við gasmengun vegna eldgoss á Reykjanesi og er fólk hvatt til að fylgjast með loftgæðamælingum á loftgaedi.is og leiðbeiningum frá Almannavörnum.

  • Gasmengun við gosstöðvarnar getur alltaf farið yfir hættumörk, mökkurinn leggst undan vindi og því öruggast að horfa til eldstöðva með vindinn í bakið.
  • Í hægviðri (<5 m/s) getur gas safnast fyrir í dalnum, þá stjórnast vindafar af landslagi og gas getur verið yfir hættumörkum langt upp í hlíðar, allan hringinn í kringum gosstöðvarnar. Í slíkum tilfellum þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi en ekki halda sig í brekkunum fyrir ofan.
  • Velja þarf gönguleið eftir vindaspá hverju sinni
  • Forðast skal að taka hunda með sér að gosstöðvunum. Hundar eru útsettari fyrir mengun vegna gass þar sem þeir eru nær jörðu. Einnig getur flúor leynst í pollum sem hundar drekka úr.

 

Veðurspá við gosstöðvarnar er svohljóðandi: 

Sunnan og suðaustan, 5-8 m/s og þykknar upp með morgninum og hlýnar, suðvestan 8-13 m/s og snjókoma eða él síðdegis og hiti kringum frostmark, en vestlægari um kvöldið.

Í nótt og snemma morguns má búast við gasmengun víða á Reykjanesinu og einnig að gasmengun hafi safnast upp við gosstöðvarnar yfir nóttina. Er líður á morguninn berst gasmengun einkum til norðvesturs að Reykjanesbæ, en síðar til norðurs að Vogum. Seinni partinn má búast við að gasmengun berist til austurs og norðausturs að höfuðborgarsvæðinu og Þorlákshöfn. Hæg suðlæg eða suðvestlæg átt og þurrt. Hægt vaxandi vindur þegar líður á daginn, S og síðar SV 8-13 m/s síðdegis með éljum. Hiti kringum frostmark. Gasmengun berst einkum til norðurs og norðausturs og gæti borist að Vogum og til Höfuðborgarsvæðisins.