Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Treystir því að AstraZeneca standi við loforð sín

Mynd með færslu
 Mynd: NRK - RÚV
Evrópuríki fá helmingi færri bóluefnisskammta frá AstraZeneca en til stóð í næstu viku. Embættismaður sem sér um dreifingu bóluefna til Norðurlandanna fyrir hönd Evrópusambandsins vonar að AstraZeneca standi við orð sín en bendir líka á að von sé á stórum sendingum frá öðrum framleiðendum. 

Vondar fréttir á fundi í gær

AstraZeneca hefur gengið brösulega að standa við afhendingaráætlanir sínar. Framleiðslutafir hafa verið viðvarandi vandamál í verksmiðju fyrirtækisins í Belgíu og nú er líka farið að bera á hnökrum í Bandaríkjunum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fundaði í gær með forsvarsmönnum AstraZeneca. Richard Bergström, sem situr í samninganefnd Evrópusambandsins um bóluefni og sér um dreifingu bóluefna til Norðurlandanna, segir að á fundinum hafi fulltrúar sambandsins fengið slæmar fréttir. Í næstu og þarnæstu viku komi minna af efninu, en til stóð. „En þau lofuðu að bæta Evrópuríkjum þetta upp í síðustu viku aprílmánaðar,“ útskýrir Bergström. 

Heitir því að standa við afhendingaráætlun

Í þetta skiptið skrifast seinkunin ekki á framleiðslubrest, talsmenn fyrirtækisins tjáðu Evrópusambandinu að skammtarnir væru tilbúnir en það ætti eftir að samþykkja þá og búa þá undir flutninga. „Vegna þessa voru fulltrúarnir nokkuð vissir um að sendingin skilaði sér,“ segir Bergström. 

Evrópuríki áttu að fá 2,6 milljónir skammta í næstu viku en þeir verða helmingi færri, 1,3 milljónir. Ísland fær því líka helmingi færri skammta, en samkvæmt afhendingaráætlun stjórnvalda var von á rúmlega 2600 skömmtum í næstu viku. Skammtarnir verða líka töluvert færri í vikunni þar á eftir. 

Í lok apríl lofar AstraZeneca að útvega Evrópuríkjum 13 milljónir skammta og framleiðindinn heitir því að standa við afhendingaráætlun annars ársfjórðungs. 

Borgar sig ekki að rifta samningnum

Nýtur fyrirtækið trausts Evrópusambandsins? Bergström segir erfitt að ergja sig á framleiðsluvandræðum, það taki tíma að auka framleiðsluna úr nokkrum þúsund skömmtum upp í milljarða. Óánægja sambandsins lúti að því að hafa ekki fengið skammta frá Bretlandi og Bandaríkjunum eins og kveðið var á um í samningnum. Vegna þessa bitni framleiðslutafir meira á Evrópuríkjum en Bretlandi og Bandaríkjunum.  En það er fátt til ráða. „Við getum rift samningnum en þá fáum við ekki bóluefni og við viljum fá bóluefni,“ samningamálin þurfi einfaldlega að útkljá seinna.  

Ekki jafn bjartsýnn og í janúar

Mynd með færslu
Þessi mynd er tekin á Arnarhóli á Menningarnótt 2017. Niðurfelling allra samkomutakmarkana á miðnætti þýðir að skipuleggjendur fjöldasamkoma á borð við Menningarnótt, Þjóðhátíð, Gleðigönguna og Fiskidaginn mikla fara nú væntanlega að bretta upp ermarnar og hefja undirbúning á fullum dampi. Mynd: RÚV
Menningarnótt í Reykjavík 2017. Það er líklega nokkuð langt í að svona mikill fjöldi fólks megi koma saman.

Hann telur fyrirtækið vera að gera sitt besta og því rétt að treysta því að það útvegi þá skammta sem það hefur lofað en hann bendir líka á að Pfizer og Moderna hyggist margfalda framleiðslu sína á næstunni. Líklega verði allir hér á landi og annars staðar í Evrópu komnir með fyrri skammtinn fyrir júnílok. Bergström var aðeins bjartsýnni þegar fréttastofa talaði við hann í janúar, þá spáði hann því að bólusetningu lyki hér um mitt sumar.