Tillögur um útivist komnar til heilbrigðisráðherra

Mynd með færslu
 Mynd:
Rauði krossinn skilaði í gær tillögum til sóttvarnalæknis um hvernig hægt væri bregðast við kröfum nýrrar sóttvarnareglugerðar. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, kynnir sér aðstæður í sóttvarnahúsinu við Þórunnartún í Reykjavík í dag .

Það sem helst hefur vafist fyrir Rauða krossinum er hvernig hægt verði að uppfylla ákvæði um daglega útivist gesta án þess að fórna sóttvörnum og skapa hættu á hópsmiti. Til þess þyrfti breytt verklag og mun fleira starfsfólk.

Báðu um skilning

Í gær sendu Sjúkratryggingar og Rauði krossinn frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að reynt yrði að finna leiðir til að uppfylla reglugerðina en á meðan yrði því miður ekki hægt að leyfa gestum að fara út. Reynt yrði að finna lausn um helgina.

Boltinn hjá heilbrigðisráðherra

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa, vildi ekki tjá sig efnislega um tillögurnar sem Þórólfur fékk, en sagði lausn í sjónmáli hvort sem útivist yrði leyfð eða ekki.  Útfærsla sóttvarnalæknis á tillögunum væri komin í hendur heilbrigðisráðherra sem einmitt hyggst skoða aðstæður í sóttvarnahúsinu í Reykjavík í dag. Boltinn sé þar í bili. 

Nú er gist í um 200 herbergjum á hótelinu. Gylfi segir gesti ekki hafa kvartað yfir innilokuninni. 
 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV