Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Þau eru að mislesa forréttindi sín”

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
„Að segja að þetta séu brot á mannréttindum og að það megi ekki skylda fólk í þetta finnst mér fáránlegt,” segir Gunnlaugur Friðjónsson, 16 ára grunnskólanemi, um óánægju fólks með skyldudvöl í sóttvarnarhúsi við komuna til landsins. „Þau eru að mislesa forréttindi sín einhvern veginn.” Þau sem RÚV hitti við Smáralindina í dag voru nokkuð sammála um hvað ætti að gera á landamærunum: Loka þeim.

Sóttvarnarhús fyrir öryggi allra

„Það ætti að skikka fólk á sóttvarnarheimili upp á öryggi allra. Fólk kýs að fara til útlanda og koma aftur. Fólk kýs að koma hingað. Og það á að vera sett í sóttkví. Af því að þetta getur endað svo illa. Það er svo vandmeðfarið. Við erum að reyna að halda árshátíðir í skólum og svona. Og ef eitt smit berst út þá þarf bara að fella allt.” 
- Markús Marteinn Rúnarsson

„Þetta er bara hrikalegt. Ég mundi ekki vilja opna landið svona mikið. Ekki spurning að hafa þessi sóttvarnarhótel.” 
- Guðmunda Helgadóttir

„Að einhverjir séu að segja að þetta sé brot á mannréttindum og að það megi ekki skylda fólk í þetta finnst mér fáránlegt. Og að fara með þetta fyrir héraðsdóm er líka fáránlegt. Þau eru að mislesa forréttindin sín einhvern veginn.”
- Gunnlaugur Friðjónsson

„Ef þú kýst að fara eitthvað þá áttu auðvitað að fylgja reglunum. Það er alls ekkert óeðlilegt við það að skylda fólk í farsóttarhús að mínu mati.”
- Marín Inga Jónsdóttir

Loka, loka, loka

„Mér finnst bara mjög skrýtið að opna landamærin frekar. Ég mundi vilja loka þeim alveg. Ég væri alveg til í að fara að komast í ræktina.”
- Theódóra Björk Ágústsdóttir 

„Ef við ætlum að fara eitthvað þá verðum við bara að sinna þessu. Verja heimafólkið sem fer ekki neitt. Síðasta sumar var mikið líf á Íslandi af Íslendingum. Við fórum út um allt. Við hefðum getað gert það eitt sumar í viðbót.”
- Albert Haraldsson

„Það ætti að loka landamærunum. Bara til að stoppa þetta af. Þetta er orðið frekar leiðinlegt, finnst mér. Ég varð tvítug núna og ég hef ekki enn getað haldið upp á tvítugsafmælið mitt,”
- Monika Max Stefánsdóttir 

Frekja og óhemjugangur

Þetta er bara rússnesk rúlletta. Og það er svo stutt í endann. Það á bara að loka þar til við erum búin að fá hjarðónæmið. Þetta er bara svo mikil frekja og óhemjugangur að maður á ekki til orð. Að kvarta yfir því að þurfa að fara á lúxushótel í nokkra daga að geta ekki verið í ró, stundað jóga og innri íhugun. Horft inn á við í smá tíma. Sem veitir ekki af í dag.
- Friðrik Þorbergsson