Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Konur yngri en 55 ára fá ekki AstraZeneca bóluefni

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Tekin hefur verið sú ákvörðun að konur yngri en 55 ára hér á landi skuli ekki fá bóluefni frá AstraZeneca þegar þær eru bólusettar við COVID-19. Það er meðal annars gert vegna aukinnar grunnáhættu yngri kvenna á blóðtappamyndun í heila.

Nokkrar efasemdir hafa verið um ágæti bóluefnisins frá AstraZeneca vegna blóðtappamyndunar hjá þeim sem fengið hafa bóluefnið. Að minnsta kosti 16 Evrópuríki gerðu hlé á notkun bóluefni AstraZeneca um miðjan mars þegar fregnir bárust af hugsanlegum tengslum milli bólusetningar með efninu og blóðtappamyndunar. Á meðal þeirra ríkja voru Ísland, Svíþjóð, Danmörk, Noregur, Frakkland, Holland, Spánn, Ítalía, Portúgal, Þýskaland, Austurríki, Lúxemborg, Litháen, Eistland og Lettland. 

Eftir að Lyfjastofnun Evrópu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvöttu til þess að bólusetning héldi áfram hófu flest ríkin bólusetningu á ný, í kringum 20. mars, en mörg með takmörkunum. 

Í gær tilkynnti Embætti landlæknis um hvernig notkun bóluefnisins verður háttað í framhaldinu. Sóttvarnalæknir fékk álit frá sérfræðingum LSH í blóðstorkuvandamálum.  Í minnisblaði þeirra til sóttvarnalæknis kemur fram að samkvæmt Lyfjastofnun Evrópu hafi 87 tilfelli greinst þar sem fólk fékk blóðtappa sem aukaverkun bólusetningar, eða 1 af hverjum 300.000. 18 dauðsföll voru vegna þessa, eða 1 af hverjum 1.4 milljón bólusettra. Aukaverkunin sé raunveruleg, en afar sjaldgæf.

Í venjulegu árferði sé það þekkt að konur séu líklegri til að fá blóðtappa en karlar. Evrópska lyfjastofnunin hafi gefið það út að ávinningur af notkun bóluefnisins sé meiri en áhættan af aukaverkuninni. Tilmæli landlæknis við notkun bóluefnisins eru að fólki með eftirfarandi sé boðið annað bóluefni:

 • Konur undir 55 ára (vegna aukinnar grunnáhættu yngri kvenna á blóðtappamyndun í heilaæðum umfram karla).
 • Einstaklingar með fyrri sögu um blóðtappa í bláæðum án þekktra áhættuþátta (sjálfsprottna bláæðasega), hvort sem þeir eru á blóðþynnandi lyfjum eða ekki.
 • Einstaklingar með undirliggjandi mikið aukna hættu á bláæðasegum s.s. sjúklingar:
  • Með beinmergsfrumuaukningu (e. myeloproliferative syndrome).
  • Langvinnt mergfrumuhvítblæði (e. chronic myeloid leukaemia; chronic neutrophilic leukaemia og myeloproliferative disease, unspecified; chronic eosinophilic leukaemia).
  • Frumkomið rauðkornablæði (e. polycythaemia vera).
  • Sjálfvakið blóðflagnablæði (e. essential thrombocythaemia).
  • Frumkomin beinmergstrefjun (e. primary myelofibrosis) – þ.m.t. sjúklingar með JAK2 stökkbreytingar.
 • Með PNH (e. primary nocturnal haemoglobinuria; köstótt næturblóðrauðamiga).
 • Með lupus anticoagulant/antiphospholipid syndrome, þ.e. sjúklingar með sjálfsmótefni sem auka hættu á bláæðasegum.
 • Á lenalidomid meðferð við beinmergsmeinum.