FSB gerir húsleit á heimili ritstjóra vefmiðils

10.04.2021 - 06:06
Mynd með færslu
Höfuðstöðvar rússnesku öryggislögreglunnar FSB. Mynd:
Rússneskir leyniþjónustumenn gerðu húsleit á heimili rússneska blaðamannsins Roman Anine. Hann er ritstjóri rannsóknar-vefmiðilsins Vajnie historie og vann áður hjá dagblaðinu Novaya Gazeta. Nýverið voru birtar greinar á vefmiðlinum um tengsl leyniþjónustunnar við skipulagða glæpastarfsemi.

AFP fréttastofan hefur eftir samstarfsmönnum hans að Anine sé sakaður um að hafa misnotað vinnuaðstöðu sína til að brjóta á friðhelgi einkalífs annarra. Fjögurra ára fangelsisdómur gæti beðið hans verði hann dæmdur.

Ritstjórn Novaya Gazeta segir málið tengjast rannsókn sem hófst árið 2016. Þá birti Anine grein þar sem hann fullyrti að eiginkona Igor Sechin, eins valdamesta manns Rússlands, ætti snekkjum að verðmæti um hundrað milljón dollara. Sechin kvartaði undan greininni og var blaðið dæmt fyrir meiðyrði. Í yfirlýsingu frá Novaya Gazeta segir að aðgerðirnar gegn Anine nú séu hefndaraðgerðir yfirvalda.

Anine stofnaði Vajnie historie í fyrra, en nafn miðilsins myndi útleggjast á íslensku sem Mikilvægar sögur. Stærstur hluti ritstjórnarinnar er með aðsetur í Lettlandi, en blaðamenn eru flestir í Rússlandi. Auk nýlegra greina um tengsl leyniþjónustunnar FSB við skipulagða glæpastarfsemi hafa birst greinar þar um pyntingar í rússneskum fangelsum og eftirlit með stjórnarandstæðingnum Alexei Navalny.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV