Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trudeau hvetur til hertra sóttvarnaraðgerða

Mynd með færslu
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefur afar þungar áhyggjur af því, að kínversk yfirvöld taki þá geðþóttaákvörðun að dæma kanadískan ríkisborgara til dauða Mynd:
Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada hvetur til þess að sóttvarnaraðgerðir verði hertar í öllum fylkjum landsins þar sem bólusetningar ná ekki að halda í við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins þar í landi.

Meira smitandi afbrigði veirunnar hafa sýkt 25 þúsund íbúa landsins frá áramótum. Verst er ástandið í fylkjunum Ontario, Bresku Kólumbíu og Alberta.

Reglur hafa verið hertar í Quebec og íbúum Ontario hefur verið gert að halda sig heima við út aprílmánuð. „Ákveðnari reglna er þörf til að draga úr útbreiðslunni,“ segir forsætisráðherrann.

Í Alberta-fylki hefur tilfellum fjölgað mest á landsvísu en þar var öldurhúsum og veitingastöðum nýverið gert að loka. Trudeau segir allra bragða þurfa að beita í baráttunni við þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins.

Kanadíski Rauði krossinn mun halda áfram fram í september að sinna öldruðum á þeim 27 hjúkrunarheimilum sem hafa orðið illa fyrir barðinu á faraldrinum.

Nokkrar tafir hafa orðið á afhendingu bóluefna í Kanada eftir að bólusetning hófst í þar desember. Milljónir skammta bárust í síðustu viku en um 17,6% landsmanna hafa fengið að minnsta kosti eina sprautu.

Nú er áætlað að allir Kanadamenn verði bólusettir í september. Frá því að faraldurinn braust út í mars á síðasta ári hefur yfir milljón veikst og ríflega 23 þúsund hafa fallið í valinn.