Telur hann tilheyra viðkvæmasta hópnum

Móðir manns með fjölþætta fötlun furðar sig á því að fá ekki svör um hvaða forgangshópi hann tilheyri, margir í svipaðri stöðu hafi þegar verið bólusettir. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu fullyrðir að enginn hafi gleymst.

Hittir mikinn fjölda fólks

Elmar Örn Sigurðsson er 26 ára, áhugamaður um fréttir, þjóðfána og landafræði. Hann er með fjölþætta fötlun og undirliggjandi sjúkdóma og sækir ýmsa þjónustu; fer í Gylfaflöt, þar sem Reykjavíkurborg rekur vinnumiðaða stoðþjónustu, í skammtímavistun og liðveislu. „Hann er viðkvæmasti hópurinn, myndi ég ætla. Hann getur hvorki gætt eigin sóttvarna, né verið einn, hann þarf þjónustu allan sólarhringinn við allar sínar daglegu venjur og hittir mikið af ólíku fólki,“ segir Hildur Sif Arnardóttir, móðir Elmars Arnar. Hún taldi Elmar eiga heima í forgangshópi þrjú, en í honum eru íbúar hjúkrunarheimila og annarra sambærilegra stofnana. Hluti íbúa búsetukjarna í Reykjavík taldist tilheyra þeim hópi. 

Reyndist erfitt að fá upplýsingar

Hildur segir að það hafi reynst afar erfitt að fá upplýsingar um hvaða forgangshópi Elmar tilheyrir, það hafi engin svör borist hvorki frá heilsugæslunni né Landlæknisembættinu. 

Mynd með færslu
 Mynd: bragi Valgeirsson
Mæðginin: Hildur og Elmar.

Hluti fólks með fjölþætta fötlun hefur fengið bólusetningu, það á við um íbúa búsetukjarna í mörgum sveitarfélögum, hægar hefur gengið að bólusetja þann hóp í Reykjavík en nú er verið að bæta í. Fjöldi fólks var bólusettur í dag, ekki liggja fyrir tölur um hve margir, en fyrir höfðu um 30% íbúa búsetukjarna fengið sprautu að sögn upplýsingafulltrúa Velferðarsviðs borgarinnar.

Borgin beitt sér gagnvart Landlækni og heilsugæslu

Hildi finnst vanta upp á samræmið. „Elmar er búinn að bíða eftir húsnæði í sjálfstæðri búsetu í sjö ár þannig að þetta er ansi köld kveðja sem hann fær, þegar hann fær ekki bólusetningu en aðrir í búsetukjörnum fá bólusetningu.“
Hildur segist alls ekki setja út á að fólk í búsetukjörnum fái sprautu, en segir mikilvægt að gæta jafnræðis. Borgin hefur líka ýtt eftir því að fatlað fólk fái aukinn forgang í bólusetningu. Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, segir, í athugasemd við færslu Hildar Sifjar á Facebook, borgina hafa beitt sér gagnvart landlæknisembættinu og heilsugæslunni, farið fram á að fólk sem þarf mikla umönnun fái forgang í bólusetningu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson
Í Gylfaflöt er vinnusmiðja en Elmar hefur lítið getað mætt upp á síðkastið vegna sóttvarnahólfunar innanhúss.

Ekki klippt og skorið hver er í hvaða forgangshópi

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir suma af þeim sem eru með fjölþætta fötlun í forgangshópi þrjú,  aðrir teljist til þeirra sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og séu í hópi sjö. „Við höfum vitað mjög vel af þessum hóp eitt af vandamálunum er að hann er mjög fjölþættur og það sýnir sig bara að það er mjög erfitt að ná utan um hann,“ segir Sigríður. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sigríður Dóra Magnúsdóttir

Því fari fjarri að heilsugæslan hafi gleymt Elmari og öðrum sem búa í foreldrahúsum.  „Þau bara voru ekki nógu framarlega í forgangsröðun miðað við sína hjúkrunarþyngd og við náttúrulega erum ekki farin að bólusetja samkvæmt undirliggjandi sjúkdómum, við erum rétt að byrja á því núna og það er reyndar gert eftir aldri og flestir þessir einstaklingar eru náttúrulega ungir,“ segir hún. 

Hún segir að reynt hafi verið að svara fyrirspurnum aðstandenda eftir bestu getu en að það geti verið erfitt að segja til um í hvaða forgangshóp fólk sé, þá hafi sumir óskað eftir upplýsingum um hvaða dag einhver fái bólusetningu. Því sé erfitt að svara því það ráðist af framboði á bóluefni. 

Gleðifréttir í morgun: Fær bólusetningu 21. apríl

Þetta er meistari Elmar Örn. Hann er enn að bíða eftir bólusetningu þrátt fyrir fjölþætta fötlun. Hann er háður aðstoð...

Posted by Hildur Sif Arnardóttir on Miðvikudagur, 7. apríl 2021

Hildur segir að hjólin hafi fyrst farið að snúast eftir að hún tjáði sig um stöðu Elmars á Facebook og hafði beint samband við verkefnastjóra hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Í dag hafi hún fengið þær gleðifréttir að Elmar fengi bólusetningu síðar í þessum mánuði. Sigríður Dóra segir Facebook-statusinn ekki hafa riðið baggamuninn. Það sé einfaldlega að koma meira af bóluefni, stíflan að bresta og allt kapp nú lagt á að bólusetja þennan hóp. Hildur er þakklát starfsfólkinu sem hefur annast Elmar og segir í raun ótrúlegt að engin smit hafi komið upp í dagþjónustunni, liðveislunni eða skammtímavistuninni. „Þau hafa staðið sig eins og algjörar hetjur.“

Óhjákvæmilega munur milli svæða

Sigríður segir að það sé misræmi milli sveitarfélaga og landshluta, það eigi ekki bara við um fatlaða heldur alla hópa og tengist íbúafjölda, fjölda í hópum og pakkningunum sem bóluefnið kemur í, það þurfi að klára þær pakkningar sem er byrjað á. „Úti á landi er kannski allt heimilið klárað í einu, þá dettur einhver inn í bólusetningu sem hér í Reykjavík væri kannski ekki kominn í bólusetningu.“ 

Foreldrarnir ekki skráðir sem umönnunaraðilar

Ef Elmar fengi Covid þyrftu foreldrar hans að vera með honum í einangrun og Hildur segir þau ekki eiga rétt á veikindadögum vegna hans. Heilsugæslan er að skoða hvenær megi bólusetja foreldra sem annast fötluð börn sín heima og teljast því umönnunaraðilar. Heilsugæslan tekur hins vegar ekki tillit til aðstæðna foreldra Elmars. „Það fer allt eftir því hvernig umönnunaraðilinn er, ef þetta eru foreldrar sem sinna fullorðnu  barni sínu án þess að vera beint í vinnu við það þá höfum við engar upplýsingar um það en við erum með upplýsingar um allar starfsstéttir og alla sem eru með rekstrarleyfi og það er verið að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk í dag eftir aldri. þetta er enn eitt flækjustigið eftir því hvernig umönnunaraðilinn er í kerfinu.“