Spurðist fyrir um bann við komu fólks frá áhættusvæðum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heilbrigðisráðherra fékk lögmannsstofu til að kanna hvort mögulegt væri að loka fyrir komu fólks frá tilteknum áhættusvæðum til að hindra frekari útbreiðslu Covid-19. Ráðherra segir þó ekki standa til að ráðast í slíkar aðgerðir.

Eftir að héraðsdómur úrskurðaði að ekki mætti skikka þá sem eiga í önnur hús að venda í sóttkvíarhús óskaði heilbrigðisráðherra eftir minnisblaði frá Juris lögmannsstofu um helstu niðurstöður héraðsdóms.

Auk greiningar á réttarstöðu ríkisins er í minnisblaðinu leitast við að svara nokkrum spurningum frá ráðherra. Fréttastofa fékk þetta minnisblað og fleiri í hendur nú síðdegis.

Ein þessara spurninga snýr að því hvort mögulegt sé að banna fólki að koma frá tilteknum áhættusvæðum. 

Heimilt en stendur ekki til

Í svari Juris er vísað til þess að í sóttvarnalögum sé heimild til afkvíunar byggðarlaga eða landsins alls vegna yfirvofandi farsóttar. Því verði að teljast að lokun landamæranna frá tilteknum svæðum sé heimil, að því gefnu að farsótt steðji að og að slíkar aðgerðir vari ekki lengur en nauðsynlegt er, segir í svarinu.

Hins vegar kunni slíkar aðgerðir að fela í sér mismunun að EES rétti og gæta verði að því að ekki sé mismunað milli landsvæða með ólögmætum hætti. Ekki þótti tilefni til að kanna þetta úrræði frekar í minnisblaðinu en þar segir að það komi til greina og unnt væri að skoða það frekar.

Í samtali við fréttastofu sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að það væri alls ekki til sérstakrar skoðunar að loka fyrir komu fólks frá ákveðnum landsvæðum. Umrædd spurning hefði verið ein af mörgum sem vöknuðu á óformlegum fundi og fyrst og fremst fallin til upplýsingagjafar.

Magnús Geir Eyjólfsson