Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sakborningur í norsku mannránsmáli handtekinn á Íslandi

09.04.2021 - 14:17
Gömul verslunarhús Hansakaupmanna í Björgvin (Bergen) í Noregi.
 Mynd: Wikipedia
32 ára gamall pólskur karlmaður, sem hefur verið eftirlýstur um allan heim af norskum yfirvöldum, var handtekinn hér á landi um páskana. Hann bíður þess nú að verða framseldur til Noregs. DNA-rannsókn tengir hann við tvö mannrán í Björgvin fyrir sex árum.

Fram kemur í norskum fjölmiðlum að maðurinn hafi fallist á að verða framseldur til Noregs. Hann verður væntanlega úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald við komuna.

Maðurinn er sakborningur í máli sem hefur verið kallað Osen-málið og er um margt flókið.

Það hófst árið 2015 þegar auðkýfingnum Reidar Osen var rænt af mannræningjum í miðborg Björgvinjar.  Osen tókst að flýja úr haldi mannræningja og lögreglunni tókst aldrei að finna þá sem þarna voru að verki. 

Lögreglan sætti harðri gagnrýni fyrir rannsókn sína og fyrir tveimur árum var málið tekið upp að nýju. 

Ekki leið á löngu þar til yfirvöld komust á snoðir um að mögulega tengdist mannránið á Osen öðru mannráni í Björgvin sama ár þar sem hinum 33 ára gamla Peter Slengesol var rænt og haldið föngnum í nokkrar klukkustundir.

Rannsókn á DNA-sýnum úr báðum málunum komu lögreglu á spor pólsks manns sem var handtekinn árið 2019 og annar maður var gripinn skömmu seinna.

Þeir voru síðan sóttir til saka; annar var dæmdur fyrir bæði Osen og Slengesol-málin en hinn eingöngu fyrir það síðarnefnda.

Í fyrra leiddi DNA-rannsókn svo í ljós að erfðaefni úr þriðja manninum var að finna á buxum Osen. Það reyndist vera úr bróður eins þeirra sem hafði hlotið dóm og í framhaldinu var gefin út alþjóðleg handtökuskipun.  Maðurinn  var síðan handtekinn hér á landi um páskana.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV