Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Óvarlegar fullyrðingar um dóma grafa undan réttarríkinu

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Stjórn Dómarafélags Íslands kveður það vera hlutverk sjálfstæðra dómstóla í réttarríki að hafa eftirlit með því að stjórnvöld virði þá skyldu sína að lagaheimild þurfi til að skerða frelsi borgaranna. Óvarlegar fullyrðingar um niðurstöðu dómstóla geti grafið undan stoðum réttarríkisins.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu stjórnar félagsins í dag vegna viðbragða við úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl um að lagastoð skorti fyrir reglugerð ráðherra um dvöl fólks frá áhættusvæðum í sóttkvíarhóteli.

Í yfirlýsingu Læknafélags Íslands daginn eftir var fullyrt að úrskurðurinn væri alvarleg aðför að sóttvörnum landsins og til úrræða þyrfti að mega grípa á óvissu- og hættutímum.

Alþingi yrði að tryggja heilbrigðisyfirvöldum óyggjandi heimildir til aðgerða þegar alvarlegar farsóttir geisuðu. Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar fullyrti í Kastljósi í gærkvöld að dómara héraðsdóms hefði orðið á mistök. 

Í yfirlýsingu dómarafélagsins segir að óvarlegar fullyrðingar á borð við að dómstólar gangist fyrir aðför að sóttvörnum á óvissu- og hættutímum séu ekki í samræmi við efnisatriði málsins. Slíkar fullyrðingar séu til þess fallnar að grafa undan stoðum réttarríkisins.

Í yfirlýsingunni segir einnig að stjórnarskráin og þær skuldbindingar sem íslenska ríkið hefur undirgengist byggist á þessu sjónarmiði og að málefnaleg gagnrýni á störf dómstóla eigi alltaf rétt á sér.

Undir yfirlýsinguna skrifa dómarararnir Bergþóra Ingólfsdóttir, Karl Axelsson, Kjartan Bjarni Björgvinsson, Kristbjörg Stephensen og Kristrún Kristinsdóttir.