Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Opna og loka síðar svo njóta megi gossins í myrkrinu

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík, segir að klukkan níu í kvöld hafi verið um 400 á bílastæðinu við Suðurstrandarveg. Enn er nokkur hópur fólks við gosstöðvarnar í Geldingadölum en í dag hafi verið jafnt streymi fólks þangað.

Bogi segir veðrið hafa verið ágætt í dag, en nokkur snjókoma og þess vegna hafi orðið hált á svæðinu.

„Það er ekkert hægt að ryðja, eða salta þannig að fólk þarf að vera vel búið og fara varlega,“ segi Bogi sem kveðst vita til þess að tveir til þrír hafi slasast í dag en það hafi verið minniháttar.

Ekki biðji heldur allir um hjálp eða aðstoð. Svæðið verður ekki opnað fyrr en um hádegisbil á morgun en ætlunin sé að hafa opið lengur, til eitt aðfaranótt sunnudags.

„Það er vegna þess að fólk óskar sér að sjá gosið í myrkri. Þetta er toppþjónusta,“ segir Bogi. Veðurspáin fyrir morgundaginn sé góð en hafa verði í huga að stillur gætu kallað á aukna gasmengun og þar með rýmingu.

Hann brýnir því fyrir fólki að hlýða björgunarsveitum og lögreglu því ekki sé verið að reka fólk í burtu að gamni sínu. Verið sé að huga að öryggi fólks og velferð og skjót viðbrögð tryggi að hægt verði að hafa svæðið opið áfram.

Bogi segist sérstaklega vilja hrósa þeim sem sótt hafa gosstöðvarnar heim fyrir hjálpsemi hvert við annað og kurteisi við björgunarsveitir og lögreglu.