Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Of fljótt slakað á aðgerðum víða í Evrópu

Mynd: EPA-EFE / EPA
Jóhanna Jakobsdóttir lektor í líftölfræði við Háskóla Íslands segir að þrátt fyrir að mörg lönd í Evrópu hafi gripið til harðra sóttvarnaraðgerða í Covidfaraldrinum, og náð góðum tökum á honum, þá hafi stjórnvöld gert þau mistök að slaka of fljótt á. Þess vegna sé staðan eins og hún er í álfunni.

Vöruðu alltaf við fleiri bylgjum 

Jóhanna er í hópi vísindamanna sem gert hafa spálíkan um þróun faraldursins nánast frá upphafi hans. Hún segir í viðtali við Spegilinn að hópurinn hafi allt frá byrjun talað um, og varað við, að bylgjurnar yrðu fleiri en ein. Veiran væri þannig að hún kæmi til baka. Jóhanna segir að sóttvarnir hafi gengið vel hér á landi, almenningur hafi tekið þátt og verið vel upplýstur.

Sér fyrir endann á hörðum aðgerðum

Eftir á að hyggja hefði mátt bregðast fyrr við í ýmsum aðgerðum, en í heildina hafi gengið vel að fást við veiruna. Nú séum við að fást við annað afbrigði af veirunni sem sé meira smitandi og því ætti ekki að koma á óvart að smit greinist utan sóttkvíar. Jóhanna segist sjá fyrir endann á hörðum sóttvarnaraðgerðum í sumar.

Hlusta má á viðtalið við Jóhönnu í spilaranum hér að ofan.  

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV