Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ný fyrirmæli um sóttkvíarbrot væntanleg á næstu dögum

Mynd með færslu
Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari. Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Von er á nýjum fyrirmælum frá ríkissaksóknara um sekt fyrir rjúfa sóttkví á næstu dögum. Þetta segir Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, í skriflegu svari til fréttastofu. Tillögur sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra sneru að því að hækka sektir til muna eða að minnsta kosti tryggja að sektarheimildir væru fullnýttar.

Samkvæmt núgildandi fyrirmælum geta sektir við því að fara ekki í sóttkví numið frá 50 til 250 þúsund krónum. Sama gildir um brot á skyldum þeirra sem eru í sóttkví. 

Til samanburðar má nefna að þeir sem fara ekki í einangrun með virkt smit geta átt von á sekt frá 150 til 500 þúsund.

Fréttastofa óskaði eftir nánari skýringum á því hvað sóttvarnalæknir ætti við með að fullnýta sektarheimildir.  Þórólfur Guðnason segir í svari til fréttastofu að þar sé átt við að tryggt sé að hæsta sekt sé alltaf greidd sem er í dag 250 þúsund krónur. 

Hann sagði í minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra í vikunni að talsverð brögð væru að því að fólk sem kæmi til landsins fylgdu ekki leiðbeiningum um heimasóttkví. Nokkrar hópsýkingar með talsverðri útbreiðslu hefðu komið upp í framhaldinu.

Hann nefndi að ein af þeim leiðum til að sporna gegn þessari hegðun væri að hækka sektir til muna. „Ætla má að auknar sektarheimildir letji menn til að brjóta sóttkvíarreglur,“ skrifaði Þórólfur í minnisblaði sínu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV