Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íslenskar konur eignast færri börn og síðar á ævinni

09.04.2021 - 13:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frjósemi á Íslandi dróst örlítið saman frá 2019-2020, úr 1,75 lifandi fæddum börnum á ævi hverrar konu niður í 1,72. Árið 2018 var frjósemin 1,7 barn og hafði aldrei verið minni. Íslenskar konur eignast börn síðar á ævinni en áður var.

Fjöldi lifandi fæddra barna er helsti mælikvarði á frjósemi en fleiri börn fæddust í fyrra en árið á undan. Þetta er meðal þess sem fram kemur í samantekt á vef Hagstofu Íslands

Fæðingartíðnin er svipuð hér og annars staðar á Norðurlöndum. Í fyrra var meðalaldur frumbyrja 28,6 ár en var undir 22 árum frá því í upphafi sjöunda áratugarins og fram yfir 1980. 

Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma. Ísland hefur verið nokkuð undir því viðmiði undanfarin ár en síðustu áratugi hefur meðalaldur frumbyrja hækkað jafnt og þétt. 

Á árinu 2020 fæddist fleiri drengir en stúlkur, þeir voru 2.385 en þær 2.127, sem þýðir að 1.121 drengur fæddist móti hverjum þúsund stúlkum. Alls fæddust 4.512 börn árið 2020 sem er 60 fleiri árið áður þegar 4.452 börn komu í heiminn.

Alls fæddust 2.385 drengir og 2.127 stúlkur en það jafngildir 1.121 drengjum á móti hverjum 1.000 stúlkum.

Fæðingartíðni hefur allt frá árinu 1932 verið hæst meðal kvenna á aldrinum 20-29 ára þar til 2019 þegar hún reyndist hæst meðal 30-34 ára kvenna. Það sama var uppi á teningnum í fyrra en konur eignast að meðaltali sitt fyrsta barn síðar á ævinni en áður var.

Á liðnu ári eignuðust konur undir tvítugu 4,7 börn á hverjar þúsund konur en á fyrstu árum sjöunda áratugarins var sú tala 8,4 börn á hverjar þúsund konur.