Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Húmoristi og máttarstólpi konungsfjölskyldunnar

Mynd: EPA-EFE / EPA
Húmoristi og einn máttarstólpa bresku konungsfjölskyldunnar eru meðal orða sem notuð voru í dag til að minnast Filippusar prins. Eiginmaður drottningar lést í morgun, 99 ára að aldri.

Filippus lést í Windsor-kastala í morgun. Hann var 99 ára og hefði orðið hundrað ára í júní.  Filipus var af dönskum og grískum aðalsættum.  Hann þjónaði í konunglega breska sjóhernum í síðari heimsstyrjöldinni.  

„Hann var verkfræðingur, uppfinningamaður og íþróttamaður sem unni krikket. Hann var sömuleiðis þekktur fyrir hráa kímnigáfu,“ sagði Theresa May, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands í dag. 

Aðalhlutverk hans var þó alla tíð að vera drottningarmaður. Hann og Elísabet gengu í hjónaband árið 1947. Fimm árum síðar varð hún drottning í Bretlandi - embætti sem hún hefur gegnt allar götur síðan. 

„Eins og sá færi ekill sem hann var hjálpaði hann til við að stýra konungsfjölskyldunni og krúnunni þannig að óumdeilt er að þessi stofnun skiptir höfuðmáli fyrir jafnvægi og hamingju þjóðarsálarinnar ,“ sagði Boris Johnson, forsætisráðherra, í ávarpi í dag. 

Filippus kom meðal annars nokkrum sinnum hingað til lands, fyrst árið 1964. 

Er forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson, hafði boðið hertogann velkominn svaraði hann með stuttu ávarpi á íslensku sem hann bar mjög vel fram og vann hugi þeirra sem á hlýddu,

segir meðal annars í frétt Morgunblaðsins um málið.  

Filippus og Elísabet eiga fjögur börn, átta barnabörn og tíu barnabarnabörn. Saga þeirra er mörgum orðin enn kunnari eftir sjónvarpsþáttaröðina The Crown.  Samúðarkveðjur hafa borist drottningunni og fjölskyldu hennar víða að í dag. 

Sjónvarpsfrétt um Filipus prins má sjá í spilaranum hér að ofan.