Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekki hægt að stóla endalaust á sjálfboðaliða við gosið

09.04.2021 - 17:05
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir ótækt að manna vöktun og gæslu með sjálfboðaliðum björgunarsveita við gosstöðvarnar til langs tíma litið. Stefnt sé að því að fá landverði til að taka við hlutverkinu, sem gæti haft góð áhrif á atvinnulíf Suðurnesjamanna.

Frá því að gos hófst þann 19. mars hafa björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar sinnt gæslu og vöktun við gosstöðvarnar á Reykjanesskaga. Fyrir páska var farið að ræða um að björgunarsveitir myndu draga úr viðbúnaði en síðan þá hafa fleiri sprungur opnast. Rögnvaldur Ólafsson segir það til skoðunar hvernig gæslu á svæðinu verði háttað.

„Þetta er allt í skoðun. Það er alveg ljóst og ég held að öllum sé það fullljóst að það er ekki hægt að keyra þetta með öllum þessum viðbragðsaðila sem eru núna til framtíðar. Þetta er fólk sem á að vera að sinna öðrum störfum, stór hluti er sjálfboðaliðar sem er ekki hægt að gefa sér að geti sinnt þessu endalaust. Það er til skoðunar hvernig er hægt að leysa þetta til framtíðar og setja landverði í þetta verkefni,“ segir Rögnvaldur.

 

Suðurnes hafa orðið einna verst úti hvað varðar atvinnuleysi vegna faraldursins. Atvinnuleysi þar mælist rúmlega 25 prósent. Ljóst er að við uppbyggingu og gæslu á svæðinu skapast einhver atvinna sem ekki bauðst áður. 

„Það er ein af þeim hugmyndum sem hafa komið upp. Ég er þó ekki með þetta á mínu borði en það eru aðrir sem eru með það, en ég veit að þetta er ein af þeim hugmyndum sem hefur verið velt upp,“ segir Rögnvaldur.

 

Fljótlega eftir að gosið hófst ákvað ríkið að leggja 10 milljónir króna í innviðauppbyggingu við gosstöðvarnar. 

„Ég veit að það er verið að vinna það, þetta er samstarf margra aðila og það er gríðarlega margt sem þyrfti að gera þarna og það þarf að forgangsraða því öllu saman, en ég veit ekki nákvæmlega hvar það er statt. Það er búið að gera ýmislegt, búið að bæta í göngustígana, og laga þá til og svo er alltaf að koma upp af og til að það þarf að setja upp nýja göngustíga og slípa til leiðir. Sú vinna er í gangi. Það er margt sem þarf að gera, laga innviði bæði með göngustíga, og svo er ekkert rafmagn á þessu svæði sem er eitthvað sem þarf að skoða líka. Við erum með fjarskiptatæki þarna sem er ekki hægt að keyra endalaust á varaafli,“ segir Rögnvaldur.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV