Efling innheimti 35 milljónir vegna vangoldinna launa

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stéttarfélagið Efling innheimti tæpar 35 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum ársins vegna kröfu 103 félagsmanna um að fá vangoldin laun sín greidd. Nýjum launakröfum af því tagi hefur fækkað undanfarið.

Á vefsíðu Eflingar segir að upphæðin, sem tilgreind er í ársfjórðungsskýrslu kjaramálasviðs félagsins, sýni mikilvægi þeirrar þjónustu sem sviðið og lögmenn Eflingar veiti félagsmönnum sem verða fyrir barðinu á launaþjófnaði.

Meðalupphæð hverrar launakröfu fer hækkandi og nemur nú tvöföldum meðalmánaðarlaunum Eflingarfélaga. Þar segir einnig að nýjum launakröfum af því tagi hafi fækkað og er það er skýrast af hruni í ferðaþjónustu vegna COVID-19. Það staðfesti þátt ferðaþjónustunnar í brotastarfsemi á vinnumarkaði. 

Jafnframt segir að hlutfallslega séu erlendir félagsmenn líklegri en aðrir til að þurfa stuðning Eflingar vegna vangoldinna launa. Fólk með íslenskan uppruna sé um helmingur félagsmanna en er fjórðungur þeirra sem leitað hafi sér aðstoðar.