Von der Leyen fékk ekki sæti með körlunum

08.04.2021 - 02:17
Mynd: EPA-EFE / HO
Uppsetning Tyrklandsforseta á fundi sínum með báðum forsetum Evrópusambandsins, þeim Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar ESB og Charles Michel forseta leiðtogaráðsins, vakti mikla athygli í gær.

Þegar inn á forsetaskrifstofuna í Ankara var komið var aðeins tveimur stólum stillt upp fyrir forsetana þrjá. Þeir Michel og Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, tylltu sér með fána Evrópusambandsins og Tyrklands á milli sín. Von der Leyen stóð eftir, reisti hönd sína og sagði stundarhátt „ehm“ til þess að vekja athygli á því að henni hafði hvergi verið vísað til sætis.

Henni var loks vísað til sætis í sófa á skrifstofunni, gegnt tyrkneska utanríkisráðherranum Mavlut Cavusoglu. Heimildir sýna að á fyrri fundi Erdogans með forsetum framkvæmdastjórnar og leiðtogaráðs ESB sátu þeir þrír saman á stólum, og var Erdogan þá á milli þeirra Donald Tusk og Jean-Claude Juncker.

Málið þykir einkar óþægilegt fyrir Tyrki, sérstaklega í ljósi þess að stjórnvöld drógu ríkið nýverið úr sáttmála kenndum við Istanbúl. Það er alþjóðasáttmáli um að draga úr ofbeldi gegn konum.

Eric Mamer, talsmaður framkvæmdastjórnar ESB, segir augljóst að von der Leyen hafi orðið hissa þegar inn á forsetaskrifstofuna var komið. Hann segir erfitt að segja til um hvers vegna henni hafi ekki verið ætlað að sitja með þeim Michel og Erdogan, því verði tyrknesk yfirvöld að svara. Hann bætti því við að vald beggja forseta ESB sé það sama, og hingað til hafi von der Leyen fengið sömu meðferð og forsetar leiðtogaráðsins. Mestu máli hafi þó skipt að hún tók virkan þátt á fundinum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV