Vara við hvassviðri á Suðausturlandi og Austfjörðum

08.04.2021 - 07:25
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofan
Veðurstofan gerir ráð fyrir norðlægri átt í dag, tíu til fimmtán metrum á sekúndu, og að það gangi í norðvestan átján til tuttugu og fimm metra á sekúndu á Suðausturlandi og Austfjörðum eftir hádegi. Él norðaustan- og austanlands fram á kvöld en bjartviðri sunnan heiða. Frost núll til átta stig.

„Lægðin og snjókomubakkinn sem henni fylgdi er á leiðinni austur og fjarlægist landið en skilur eftir hjá okkur norðan strekking eða allhvassann vind. Á Suðausturlandi og á Austfjörðum verður norðvestan hvassviðri eða stormur. Eftir ofankomu næturinnar verður víða bjartviðri eða léttskýjað en þó verður nokkur él norðaustan- og austanlands fram á kvöld,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Gular veðurviðvaranir taka gildi síðar í dag á Suðausturlandi og Austfjörðum. Á Suðausturlandi er gert ráð fyrir norðan hvassviðri eða stormi austan Öræfa og 18 til 28 metrum á sekúndu. Sand og grjótfok er líklegt og eru ferðalangar hvattir til að sýna aðgát og fólk til að tryggja lausamuni.

Á Austfjörðum er einnig gert ráð fyrir norðvestan hvassviðri eða stormi, 18 til 25 metrum á sekúndu. „Mjög snarpar vindhviður, allt að 40m/s. Fólk er hvatt til að sýna aðgát á ferðalögum og tryggja lausamuni,“ segir í viðvörun Veðurstofunnar.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV