Vaktir styttast hjá nær níu þúsund manns

08.04.2021 - 15:40
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Vinnuvikan styttist um næstu mánaðamót hjá allt að níu þúsund opinberum starfsmönnum sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum. Í sumum tilfellum getur vinnuvikan styst úr 40 tímum í 32. Langflestir sem eru í hlutastörfum ætla að halda áfram sama vinnuframlagi og hækka um leið launin.

Undanfarið hefur verið unnið hörðum höndum við að skipuleggja nýjan vinnutíma hjá öllum þessum fjölda. Öfugt við styttingu vinnuvikunnar hjá daglaunafólki þar sem samið var um útfærsluna á hverjum vinnustað munu sömu reglur gilda fyrir allt vaktavinnufólk hjá hinu opinbera. Þriggja manna verkefnastjórn var sett yfir verkefnið. Bára Hildur Jóhannsdóttir er verkefnastjóri betri vinnutíma í vaktavinnu. Hún segir að verkefnið sé stórt og er handviss um að tímaáætlun standist. Vinnutími vaktavinnufólks styttist 1. maí.

„Þetta verkefni nær til átta til níu þúsund starfsmanna hins opinbera og það er alveg rétt að þetta er risastórt verkefni. Það er búið að halda þétt utan um það en auðvitað hefðum við kosið aðeins lengri tíma. Hins vegar mun verkefnið fara að stað 1. maí næstkomandi. Það eru ýmsar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir en ekki vankvæði í þeim skilningi. Áskoranir eru bara til þess að sigrast á þeim og við getum þetta saman með samvinnu, samstarfi og samráði. Við höldum ótrauð áfram og ætlum að ná í mark 1. mái,“ segir Bára Hildur.

Launin hækka

Það þarf að taka á ýmsum málum. Til dæmis að vinna nýtt skráningarkerfi eins og vinnustund og upplýsa starfsmenn um hvað er í vændum. Stór hluti eða 4500 manns starfa á vöktum hjá ríkinu. Talsvert margir eru í hlutastarfi. Starfshlutfallið meðal hjúkrunarfræðinga er til dæmis um 80%, ljósmæðra um 70% og sjúkraliða um 78%. Forsendur með breytingunni eru meðal annars þær að þeir sem eru í hlutastarfi geta hækkað starfshlutfallið um það sem styttingunni nemur. Sá sem er í 80% starfi getur farið í 89%. Vinnuframlagið verður það sama en launin hækka. Margir hafa ákveðið að fara þessa leið.

„Af þeim sem eru í hlutastarfi ætla yfir 90% að vinna sama vinnutíma sem þeir hafa gert í dag en fá hærri laun í staðinn. Það er kannski ástæðan að við tölum um betri tíma í vaktavinnu en ekki styttri tíma í vaktavinnu því það er líka markmið að gera vaktavinnuna eftirsóknarverðari, mæta kröfum launafólks um að 100% vaktavinna sé allt að 80% viðvera fyrir erfiðustu vaktirnar. Og líka það að við ætlum að auka ævitekjur og jafnrétti með styttingu vinnuvikunnar.“

Milljarða kostnaður

Þegar samið var um styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki var áætlað að breytingin myndi kosta ríkið um 3-4 milljarða króna og að hún þýddi sem svarar 450 nýjum stöðugildum. Miðað hefur verið við að kostnaður nemi um 7% af heildarlaunakostnaði. Bára Hildur segir að gengið hafi verið út frá því  frá upphafi að þetta myndi kosta peninga en kostnaður sé mismunandi.

„Það er einfaldlega breytilegt hver kostnaður verður út frá því hvernig hægt er að skipuleggja störfin. Kostnaðurinn er allt frá því að vera enginn upp í að vera 10-15%. Við vitum hvaða hópar eru dýrastir. Það eru þeir sem vinnan allan sólarhringinn alla daga ársins. Hóparnir sem eru hvað ódýrastir eru þeir sem vinna hluta af sólarhring og eru á mörkum þess að geta talist vaktavinnumenn,“ segir Bára Hildur.

Óljóst hvað þarf að ráða marga

Með styttingu vinnuvikunnar þarf að stoppa upp í götin sem myndast. Það gerist meðal annars með því að starfsmenn kjósa að halda áfram sama vinnuframlagi en ljóst er að það þarf að ráða nýtt fólk. Bára Hildur segir að Landspítalinn sé að fara yfir stöðuna hjá sér en það sé ekki ljóst hvað þar að ráða marga nýja starfsmenn. Hún bendir á að í heilbrigðisþjónustunni séu lang flestir í hlutastörfum og mönnunargatið leysist með því að halda áfram óbreyttu starfshlutfalli.

„Þar sem að starfsfólkið er 100 prósenta störfum eins og til dæmis í löggæslunni þarf að fara í nýráðningar.“

Vinnutími þeirra sem starfa á næturvöktum getur styst í 32 stundir á viku. Það skýrist af því að hver unninn klukkutími í næturvinnu reiknast sem 72 mínútur og hjá þeim sem er á kvöld- og helgarvöktum 63 mínútur. Þá er gert ráð fyrir svokölluðum vaktahvata sem hefur áhrif á laun til hækkunar. Breytingarnar sem standa fyrir dyrum eru nokkuð flóknar við fyrstu sýn. Bára Hildur segir að markmiðið sé að vaktavinnan verði eftirsóknarverðari.