Þórólfur búinn að senda nýtt minnisblað til ráðherra

Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur sent heilbrigðisráðherra nýtt minnisblað um aðgerðir á landamærunum. Landsréttur vísaði í gær frá kæru hans vegna úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um að ekki væri lagastoð fyrir því að skikka þá sem gætu verið í sóttkví heima hjá sér í sérstakt sóttkvíarhótel. Í minnsblaðinu er lagt til hvernig megi skerpa á reglum um heimasóttkví. Nýju aðgerðirnar verða ekki jafn áhrifaríkar, segir Þórólfur.

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í morgun. Fjórir greindust með kórónuveiruna í gær og voru þeir allir í sóttkví.  80 hafa smitast af veirunni frá því að hertar aðgerðir tóku gildi.

Þórólfur viðurkenndi að niðurstaða dómstóla og að reglugerðin um sóttkvíarhótelið skyldi ekki standast lög væru vonbrigði. Þetta þýddi þó ekki að sóttvarnir hér á landi væru í uppnámi, að svo stöddu.

Þórólfur rakti það í máli sínu hvernig beint samhengi væri milli smita frá farþegum sem hingað kæmu og héldu ekki sóttkví og svo útbreiðslu smita innanlands. Síðastliðna tvo mánuði hafi 105 greinst á landamærunum og 97 innanlands. Rakning og raðgreining sýndi að öll 97 smitin tengdust landamærunum og leka í gegnum þau.

Á þessum tíma hafi þrjár stórar hópsýkingar komið upp; ein með veirutegund sem ekki hefur tekist að staðsetja á landamærunum þar sem 48 smituðustu og á annað þúsund fóru í sóttvkí. Í annarri hópsýkingunni smituðust tólf vegna ferðamanns sem ekki hélt sóttkví og á fjórða hundrað manns neyddust til að fara í sóttkví.

Í þeirri þriðju smituðust 11. Aðrar sýkingar voru í minni hópum sem allar mátti rekja til landamæranna. „Þannig er greinilegt að aðeins þarf nokkra smitaða til að komast í gegnum landamærin til að setja af stað hópsýkingar sem auðveldlega geta sett af stað nýja bylgju.“

Þórólfur sagði þess vegna mikilvægt að koma í veg fyrir að smit bærist inn til landsins þar til meira ónæmi hefði myndast með öflugri þátttöku í bólusetningu. Hann skilaði því í gær nýju minnisblaði til heilbrigðisráðherra um hvernig megi skerpa á reglum um heimasóttkví. Sóttvarnalæknir tók fram að þessar aðgerðir væru ekki jafn áhrifaríkar og fyrri aðgerðir en dygðu vonandi til þess að koma í veg fyrir að smit læki í gegnum landamærin.

Þórólfur lýsti jafnframt yfir áhyggjum af þeim óróa sem hefði gætt síðustu daga og vonaðist til að samtakamáttur þjóðarinnar héldist á þessum síðustu metrum faraldursins.  Hann var spurður að því hvort óróinn hjá stjórnmálamönnum hefði áhrif á stöðu hans, hvort hann væri farinn að íhuga að stíga til hliðar og láta þá taka slaginn og var nokkuð afdráttarlaus í svari: „Á meðan ég nýt trausts míns ráðherra og forsætisráðherra er ekkert fararsnið á mér.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV