Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Tékkum heimilt að skylda börn í bólusetningu

epa06677073 An exterior view of the the European Court of Human Rights in Strasbourg, France, 18 April 2018 .  EPA-EFE/PATRICK SEEGER
 Mynd: EPA
Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp þann úrskurð í dag að yfirvöldum í Tékklandi væri heimilt að skylda ung, börn í bólusetningu við ýmsum sjúkdómum. Málið höfðuðu fjölskyldur sem höfðu hlotið sekt fyrir að neita að mæta með börn sín til bólusetningar. 

Þar á meðal voru einnig foreldrar barna sem hafði verið neitað um vist á leikskóla því þau voru ekki bólusett. Í úrskurðinum segir að þó að tékkneska ríkið hafi vissulega afskipti af einkalífi fjölskyldnanna með reglunum þá sé mikil þörf á að vernda heilsu almennings og því megi gera kröfu um bólusetningu. Þess má geta að málin komu upp áður en COVID-faraldurinn braust út.

Þetta var fyrsti úrskurður dómstólsins um bólusetningar barna. Sextán dómarar af sautján voru sammála túlkun tékkneska ríkisins. Samkvæmt lögum þar í landi ber foreldrum skylda til að mæta með börn sín í bólusetningu við níu sjúkdómum, þar á meðal við mislingum, kíghósta, stífkrampa og barnaveiki. Gerðar eru undantekningar ef barn getur ekki fengið bólusetningu af heilsufarsástæðum. Þó má ekki neyða fólk með börn í bólusetningu með valdi og ekki má neita börnum um grunnskólagöngu ef þau eru ekki bólusett. 

epa08026199 A medical worker of Myanmar public health department inoculates a girl for measles and rubella during a nationwide vaccination campaign, at Lanmadaw in Yangon, Myanmar, 26 November 2019. The three-day campaign is expected to cover 95 percent of children between the ages of nine months to five and half-years-old. The campaign is aimed at reduce mortality rates of children under the age of five and the country wide eradication of measles and rubella by 2023.  EPA-EFE/LYNN BO BO
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Misstu pláss á leikskóla

Í einu málanna sem mannréttindadómstóllinn úrskurðaði um í dag höfðu foreldrar neitað að láta bólusetja barn sitt við mislingum, hettusótt og rauðum hundum. Barnið byrjaði á leikskóla árið 2006 en missti plássið tveimur árum síðar eftir að læknir fjölskyldunnar tilkynnti skólastjórnendum að barnið hefði ekki verið bólusett. Dómstóll í Tékklandi komst að þeirri niðurstöðu að heimilt hefði verið að víkja barninu úr skólanum því vera þess þar gæti skapað hættu fyrir aðra. Þá komust dómararnir að þeirri niðurstöðu í dag að hagsmunir barna væru í forgrunni í stefnu Tékklands í heilbrigðismálum. 

Gæti haft áhrif á COVID-bólusetningar

Úrskurður Mannréttindadómstólsins í dag gæti haft áhrif síðar ef ríki ætla að skylda fólk í bólusetningu við COVID-19, hefur AFP-fréttaveitan eftir Nicolas Hervieu, lektor í lögum hjá Sciences Po, sem þekkir vel mála hjá dómstólnum. Úrskurðurinn sýni að skylda megi alla í bólusetningu, líka þá sem telja að sér stafi ekki ógn af ákveðnum sjúkdómum. Markmiðið með bólusetningu sé ekki aðeins að vernda þann bólusetta heldur líka viðkvæma hópa sem ekki geti farið í bólusetningu, heilsu sinnar vegna, og þurfi að treysta á hjarðónæmi.