Stóru krakkarnir í Kaleo og OMAM með ný lög

Mynd: Atlantic Records / Skinny

Stóru krakkarnir í Kaleo og OMAM með ný lög

08.04.2021 - 16:05

Höfundar

Það vantar ekki bomburnar í Undiröldu kvöldsins þar sem tónlistarunnendur fá að heyra ný lög frá stórstjörnunum í Kaleo og Of Monsters and Men. Þau eru ekki ein um hituna því við fáum líka ný lög frá Hipsumhaps, Snny, Ugly Since 91, Basaltic Suns og Smára Guðmundssyni.

Kaleo - Skinny

Þá er farið að styttast í að önnur plata hljómsveitarinnar Kaleo, Surface Sounds, komi út eða rétt rúmar tvær vikur. Break My Baby var fyrsti söngull nýju plötunnar og gekk glimrandi vel í bandarísku rokkútvarpi og nú gefa þeir út annan söngulinn, Skinny, sem virðist við fyrstu sín hitta vel í mark.


Of Monsters & Men - Destroyer

Destroyer er nýtt lag eftir þau Ragnar Þórhallsson og Nönnu Bryndísi Hilmarsdóttur með hljómsveitinni síglöðu Of Monsters and Men. Lagið var frumflutt í sjónvarpsþættinum Manifest á NBC í gær og kemur út í dag á helstu streymisveitum.


Hipsumhaps - 2021

Hljómsveitin Hipsumhaps gaf út breiðskífuna Best gleymdu leyndarmálin á haustmánuðum síðasta árs sem að hlaut mikið lof gagnrýnenda og nokkur lög slógu í gegn. Nú er komið að nýrri plötu sem hefur fengið nafnið Lög síns tíma og lagið 2021 er fyrsti söngull hennar.


Snny - Cold Sugar

Tónlistarmaðurinn Snny er fæddur á Fílabeinsströndinni, alinn upp í Boston og fluttist til Íslands fyrir ári með fjölskyldu sinni frá New York. Hann gaf út sitt fyrsta efni árið 2017 en hefur síðan hann flutti til landsins kalda verið að vinna í tónlist með fjölmörgum íslenskum tónlistarmönnum. Meðal þeirra helstu eru GDRN, Moses Hightower og fleiri en nýjasta lag Snny er Cold Sugar.


Ugly Since 91 - Sólskin

Ugly Since '91 hefur sent frá sér frumsömdu þröngskífuna Sólskin en það er raftónlistarfyrirtækið Möller Records sem gefur plötuna út. Alexander Gabríel er maðurinn á bak við Ugly Since '91. Sólskin er önnur plata hans en hann gaf út plötuna Cocky Yo árið 2018.


Basaltic Suns - Star Of Night

Hljómsveitin Basaltic Suns er nútíma norrænn og rafrænn klettasamruni myndaður af íslenska danska tvíeykinu Kristjáni og Jóa, eins og segir í hnitmiðaðri tilkynningu frá dúettnum.


Smári Guðmundsson - To the End of the World

Smári Guðmundsson hefur tekið þátt í mörgum tónlistartengdum verkefnum í gegnum tíðina eins Klassart, Fríðu Dís og fleirum en vinnur nú að sólóefni sem kemur út bráðlega. The Apotheker er bæði útvarpsleikrit og hljómplata og þar er lagið To the End of the World að finna.