Stærsta heimagerða sprengjan sem notuð hefur verið

08.04.2021 - 13:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Rannsókn á skemmdarverkum sem unnin voru í Ólafsfjarðargöngum í mars, þegar þar var sprengd heimagerð sprengja, er enn í fullum gangi. Sprengjan var sú stærsta sinnar tegundar sem sprengd hefur verið í þessum tilgangi á Íslandi. Refsing við brotinu getur verið allt að sex ára fangelsi.

Fjórir handteknir 

Fjórir voru handteknir í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og lögreglustjórans á Suðurnesjum. Fólkinu, sem allt er á fertugs- og fimmtugsaldri, var sleppt úr haldi lögreglu eftir skýrslutöku. Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, segir í samtali við fréttastofu að rannsókn gangi vel. Nú sé verið að kortleggja hversu umfangsmikill þáttur hvers og eins var í málinu og er meðal annars stuðst við farsímagögn í þeirri rannsókn.

„Mál sem hefur háan refsiramma“

„Þetta mun taka smá tíma, það sem við erum að skoða núna er hver þáttur hvers og eins er í málinu þ.e.a.s. hvort einhver einn eigi meiri þátt en annar. Þetta er mál sem hefur háan refsiramma,“ segir Bergur og vísar í 164. grein hegningarlaga um brot, sem hafa í för með sér almannahættu. 

„Ef maður raskar öryggi járnbrautarvagna, skipa, loftfara, bifreiða eða annarra slíkra farar- eða flutningatækja, eða umferðaröryggi á alfaraleiðum, án þess að verknaður hans varði við 165. gr., þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum,“ segir í almennum hegningarlögum.

Sjá einnig: Sprengingin áminning um eldhættu í Múlagöngum

Enn að skoða hversu öflug sprengjan var

Sprengjan sprakk inni í rými, eða útskoti í göngunum, þar sem fyrir er gámur með búnaði fyrir ljós, neyðarsíma og ýmis konar öryggiskerfi í göngunum. Þetta gerðist 18. mars og þótt öllu hafi nú verið komið í lag sjást enn ummerki á staðnum. Bergur segir að sprengjan sé sú stærsta sinna tegundar sem sprengd hefur verið hér á landi í þeim tilgangi að valda skemmdum.

„Það er enn verið að skoða hversu öflug hún var en við vitum að þetta er sú stærsta af tegundinni IED (improvised explosive device) sem notuð hefur verið í þessum tilgangi hér á landi,“ segir Bergur.