Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Píratar bæta við sig

08.04.2021 - 13:49
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og Píratar bæta allir við sig um það bil tveimur prósentustigum í nýrri fylgiskönnun MMR sem var birt í dag, ef miðað er við þá síðustu sem var birt í mars. Vinstri græn, Framsóknarflokkurinn og Miðflokkur minnka.

Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur og fylgið mælist nú 23,1 prósent, rúmlega tveimur prósentustigum meira en við síðustu könnun MMR. Fylgi Samfylkingarinnar, sem er næststærsti flokkurinn, hefur aukist um tæplega tvö prósentustig frá síðustu könnun og mælist 15,4 prósent. Píratar stækka að sama skapi um tæplega tvö prósentustig og mælast nú 13,2 prósent.

VG, Framsókn og Miðflokkur minnka

Fylgi Framsóknarflokksins hefur dregist saman um rúmt prósentustig og mælist nú 11,5 prósent. Fylgi Vinstri-grænna hefur minnkað um tæplega tvö prósentustig og mælist nú 10,1 prósent og fylgi Miðflokksins hefur einnig dregist saman um rúmlega tvö prósentustig og mælist 6,9. Fylgi Viðreisnar haggast ekki, er áfram 10 prósent. 

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 52,5 prósent og dróst saman um rúmt prósentustig frá síðustu könnun, þar sem stuðningur mældist 53,7.