Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segir íbúakosningu um skipulag á Oddeyri tilgangslausa

08.04.2021 - 09:13
Hugmyndir að uppbyggingu á Oddeyri á Akureyri, allt að ellefu hæða hús.
 Mynd: Zeppelin
Helgi Örn Eyþórsson, verkefnisstjóri hjá SS Byggi segir íbúakosningu sem fyrirhuguð er í næsta mánuði um skipulagsmál á Oddeyri tilgangslausa. Hún snúist um ósjálfbært verkefni. Hann segir útilokað að SS Byggir komi að því að byggja þar fimm hæða hús.

„Við byrjuðum á að tala um 11 hæðir“

Verktakinn SS Byggir kynnti hugmyndir haustið 2019 um að reist yrðu allt að ellefu hæða fjölbýlishús á Gránufélagsreit á Oddeyri. Málið skapaði strax miklar umræður í bænum og segja má að fólk hafi skipst í fylkingar með og á móti húsunum. „Við byrjuðum á að tala um 11 hæðir niður á Eyri en vorum svo í samtali við skipulagsyfirvöld um sjö til átta hæðir en það á síðan að fara í íbúðakosningu, einhverjar fimm hæða byggingar, eins og mér skilst,“ segir Helgi Örn sem var gestur á Morgunvakt Rásar 1 í gær. 

Það þarf kjark og þor til að standa fyrir breytingu

Verkefnið hefur frá fyrsta degi verið nokkuð umdeilt og heitar umræður verið um málið. „Ég held að andstaðan sé ekki eins mikil og samfélagsmiðlarnir eru að segja okkur en það virðist ekki vera vinsælt að standa fyrir eða vilja breytingar í skipulagsmálum. Það þarf kjark og þor til að standa fyrir breytingu á skilulagi, tala nú ekki um þegar talað er um þéttingu byggðar.“

Heldur þú að bæjaryfirvöld skorti kjark og þor til þess að fara með þessar hugmyndir alla leið?

„Ég held að þeim látist stundum af veg í ferlinu, þetta er langt og strangt ferli og ég held að þeir sem standi í pólitíkinni þreytist á umræðunni og missi sjónar af markmiðinu.“

Sjá einnig: „Tilvalið mál til að fara með í íbúakosningu“

Ætla ekki að taka þátt í verkefninu að óbreyttu

„Bæjarstjóra var falið að útfæra íbúakosningu sem á að fara fram fyrir lok maímánaðar. Þar er kynnt til sögunar enn ein breyting á því skipulagi þar sem er gert ráð fyrir held ég fimm til sex hæða byggingum en þeir gefa skipulaginu 20 metra yfir sjávarmáli. Gólfpunkturinn á að vera í 2,2 metra yfir sjálfarmáli þannig að ég sé ekki að það rýmist miðað við kröfur hærra en fimm hæðir. Ég persónulega er mótfallinn þessu skipulagi, ég vil ekkert bjóða þarna fjórar til fimm hæðir, það er bara ekki sjálfbært.“

Þannig að fari svo að íbúar samþykki þetta þá er ekki víst að þið farið í þetta?

„Það er bara öruggt að við gerum það ekki.“

Er þá þessi kosning tilgangslaus?

„Ég hugsa það. Sá aðili sem færi þarna inn þarf að taka mið af því að þarna eru dýr uppkaup fram undan og dýr grundun að byggja svona undir sjávarmál. Þannig að skipulagið sem Akureyrarbær er að fara með í íbúakosningu, segjum svo að það verði samþykkt, það er ósjálfbært.“ 

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Umrædd lóð