Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ógleði og krampi eftir gaseitrun við gosstöðvarnar

Mynd: Thelma Dórey Pálmadóttir / Thelma Dórey Pálmadóttir
„Ég þarf bara að kasta upp. Ligg bara í jörðinni og er að reyna að gubba en nær engu upp. Svo þegar mesta ógleðistilfinningin er liðin fær ég svakalegt kuldakast og skelf bara og fæ krampa í hendurnar og hnén og get ekki staðið upp eða neitt,“ segir Thelma Dórey Pálmadóttir, 14 ára, sem gekk upp að gosstöðvunum á páskadag með fjölskyldunni sinni. Skýringarnar sem fjölskylda Thelmu hefur fengið frá læknunum er að hún hafi orðið fyrir gaseitrun.

Sjúkraflutningamenn trúðu ekki sínum eigin augum

Björgunarsveitin keyrði Thelmu til móts við sjúkrabíl. „Þau tóku prufu á koltvísýringnum mínum og hann var mjög lágur. Hann var í fimm til sex en á að vera í þrjátíu og fimm að meðaltali, þau héldu að tækin væru biluð, þau hafa aldrei séð svona lágan, þá var ég send upp á spítalann í Keflavík með forgangi,“ segir Thelma jafnframt. Hún segist ekki vera viðkvæm fyrir.

Tíu fundið fyrir einkennum

Á Eitrunarmiðstöð Landspítala hafa tíu einstaklingar hringt sem fundið hafa fyrir einkennum eftir göngutúrinn og einnig tveir læknar til að leita ráða. Þangað er hægt að leita allan sólarhringinn.

Thelma var flutt á barnaspítalann þar sem hún fékk súrefni og vökva í æð í fjóra tíma. Varstu nálægt hrauninu eða hvar varstu? „Nei ekkert þannig. Við sátum aðeins ofar og vorum að labba um, vorum ekki föst á sama stað.“ Alltaf er mælt með því að hafa vindinn í bakið þegar gosstöðvarnar eru heimsóttar. 

Enn óglatt fjórum dögum seinna

Thelma treysti sér ekki í skólann í dag en segist vera öll að braggast. Enn hellist þó yfir hana þessi ógleði. Hún ráðleggur fólki að leita strax til björgunarsveitarinnar ef það finnur fyrir einkennum. „Þeir stóðu sig mjög vel, snögg viðbrögð hjá þeim og fá hjálp frá þeim strax.“