Nánast hægt að þurrka veiruna út með ákveðnum aðgerðum

08.04.2021 - 13:06
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að í upphafi farsóttarinnar hafi markmiðið verið að halda kúrfunni niðri og fletja hana út en reynsla síðustu mánaða hafi sýnt að hægt sé að þurrka hana nánast út úr samfélaginu með ákveðnum aðgerðum. Hann segir ekkert fararsnið á honum á meðan hann nýtur trausts hjá sínum ráðherra og forsætisráðherra.

Þetta var meðal þess sem kom fram á upplýsingafundi almannavarna í morgun.

Fjórir greindust innanlands í gær og voru öll smitin hjá fólki í sóttkví. Nýgengi smita heldur áfram að lækka, er nú komið í 21,5 smit á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur eftir að hafa mest náð 24 smitum. Ísland er þó áfram metið appelsínugult, samkvæmt uppfærðu korti yfir áhættusvæði hjá sóttvarnastofnun Evrópu.

Á fundinum kom fram að smitið á Suðurlandi, sem fjallað var um í  gær, væri rakið til farþega sem framvísaði vottorði um fyrri sýkingu. Raðgreining leiddi í ljós að þetta var undirtegund af breska afbrigðinu sem ekki hefur greinst hér áður.  Þórólfur sagði endursýkingar afar sjaldgæfar en þær gætu gerst og stjórnvöld yrðu að vera reiðubúin að bregðast við ef þeim færi að fjölga.

Eins og svo oft áður snerist umræðan á upplýsingafundinum í morgun um landamærin og hvernig væri hægt að koma í veg fyrir að smit leki í gegnum þau. Aðgerðirnar fengu nokkuð þungt högg í gær þegar Landsréttur vísaði frá kæru sóttvarnalæknis vegna úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um að ekki mætti skikka fólk í sóttkvíarhótel sem gæti verið í sóttkví heima hjá sér.

Þórólfur hefur nú skilað nýju minnisblaði til heilbrigðisráðherra um hvernig sé hægt að bregðast við þessum „vonbrigðum“ eins og hann kallaði niðurstöðu dómstóla á fundinum í morgun. Hann tók þó fram að þær aðgerðir yrðu ekki jafn áhrifaríkar en þær fælu í meðal annars í sér að skerpt yrði á þeim skilyrðum sem fólk þyrfti að uppfylla til að geta verið í sóttkví heima hjá sér.

Hann lagði fram tölur sem hann sagði sýna hversu mikilvægt væri að stoppa í þessi göt. Síðastliðna tvo mánuði hefðu 105 greinst á landamærunum og 97 innanlands. Öll innanlandssmitin mættu rekja til farþega sem ekki hefðu virt sóttkví og tölurnar sýndu að ekki þyrfti nema nokkra smitaða farþega til að setja af stað hópsýkingar „sem auðveldlega geta sett af stað nýja bylgju.“

Þórólfur nefndi það sömuleiðis að í upphafi farsóttarinnar hefðu þau rennt nokkuð blint í sandinn. Markmiðið hefði verið að fletja út kúrfuna og halda henni niðri en ekki hefði verið vitað hvaða árangri þær aðgerðir sem gripið var til myndu skila. Nú væru þau reynslunni ríkari og vissu að það væri nánast hægt að þurrka út veiruna með ákveðnum aðgerðum.  „Með því að standa vel að aðgerðum á landamærunum þá getum við slakað verulega á takmörkunum innanlands og verið nánast með veirufrítt samfélag og það er það sem við erum að stefna að.“

Þórólfur bætti við að þetta væri markmiðið þar til góð þátttaka hefði fengist í bólusetningu og veiran gæti þannig ekki valdið þeim usla sem hún annars myndi gera. „Þetta er planið og hefur alltaf verið það þótt það hafi ekki verið öllum ljóst.“

Hugtakið „veirufrítt samfélag“ sem Þórólfur notaði hefur verið umdeilt meðal sumra stjórnmálamanna sem telja það býsna langt frá þeirri hugmynd að fletja út kúrfuna eins og talað var um í upphafi. „Mér hef­ur stund­um fund­ist við kannski full­lengi að aflétta og mér hef­ur fund­ist við taka svo­lít­inn snún­ing frá því að tala um að fletja út kúrfu og halda stjórn yfir í það að stefna að veiru­fríu landi sem er út­ópía,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra, í viðtali við Fréttavaktina á Hringbraut í lok síðasta mánaðar.

Þórólfur var einmitt spurður að því hvort sá órói sem hefði gætt meðal stjórnmálamanna, þvert á flokka, eftir niðurstöðu dómstóla í vikunni hefði haft áhrif á stöðu hans og hvort hann hefði hreinlega velt því fyrir sér að láta stjórnmálamennina bara um verkefnið. „Á meðan ég nýt trausts hjá mínum ráðherra og forsætisráðherra er ekkert fararsnið á mér,“ var svarið.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV