Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Merkel hvetur Pútín til að minnka umsvif við Úkraínu

08.04.2021 - 15:27
epa08646589 (FILE) - German Chancellor Angela Merkel (L) and Russian President Vladimir Putin during the International Libya Conference in Berlin, Germany, 19 January 2020 (reissued 04 September 2020). Opposition parties have called on German Chancellor Merkel to abandon the joint German-Russian pipeline project Nord Stream 2 in response to the alleged poisoning of Kreml critic Alexei Navalny.  EPA-EFE/HAYOUNG JEON
 Mynd: EPA
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hvatti Vladimír Pútín, forseta Rússlands, til þess í dag að minnka hernaðarumsvif við landamæri Rússlands að austurhluta Úkraínu. Spennan hefur aukist á svæðinu að undanförnu og aukin harka hefur færst í bardaga úkraínska hersins og aðskilnaðarsinna.

Merkel og Pútín ræddust við í síma í dag og vonast hún til þess að ef Rússar minnka umsvif sín slakni á spennunni. Í tilkynningu frá Kreml segir að Pútín hafi í samtalinu bent á að aðgerðir úkraínska hersins að undanförnu hafi verið ögrandi og ekki til að bæta ástandið. Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, fór á átakasvæðin í dag en hann hefur að undanförnu þrýst á um skjótari afgreiðslu á inngöngu Úkraínu í Atlantshafsbandalagið. 

Átökin brutust út árið 2014 þegar Rússar innlimuðu Krímskaga. Samið var um vopnahlé í júlí í fyrra en þrátt fyrir það hafa brotist út átök þar sem stórtækum vopnum hefur verið beitt. 

Stjórnvöld í Úkraínu halda því fram að aðskilnaðarsinnar séu studdir af Rússum. Í síðustu viku sökuðu úkraínsk stjórnvöld þau rússnesku um að hafa sent þúsundir hermanna að landamærunum í norðri og austri og á Krímskaga. Dmitry Kozak, fulltrúi Kreml í samskiptum við Úkraínu og aðskilnaðarsinna, greindi frá því í dag, samkvæmt frétt AFP, að friðarviðræðum verði haldið áfram 19. apríl. Hann varaði við því að ef harkan í átökunum myndi aukast myndi það vera „byrjunin á endalokum Úkraínu“ og að með því væru stjórnvöld þar ekki að skjóta sig í fótinn, heldur í andlitið. 

Rússnesk stjórnvöld hafa ekki neitað því að hafa fjölgað í herliði sínu á svæðinu en hafa sagt að þau ógni ekki neinum.