
Merkel hvetur Pútín til að minnka umsvif við Úkraínu
Merkel og Pútín ræddust við í síma í dag og vonast hún til þess að ef Rússar minnka umsvif sín slakni á spennunni. Í tilkynningu frá Kreml segir að Pútín hafi í samtalinu bent á að aðgerðir úkraínska hersins að undanförnu hafi verið ögrandi og ekki til að bæta ástandið. Forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, fór á átakasvæðin í dag en hann hefur að undanförnu þrýst á um skjótari afgreiðslu á inngöngu Úkraínu í Atlantshafsbandalagið.
Átökin brutust út árið 2014 þegar Rússar innlimuðu Krímskaga. Samið var um vopnahlé í júlí í fyrra en þrátt fyrir það hafa brotist út átök þar sem stórtækum vopnum hefur verið beitt.
Stjórnvöld í Úkraínu halda því fram að aðskilnaðarsinnar séu studdir af Rússum. Í síðustu viku sökuðu úkraínsk stjórnvöld þau rússnesku um að hafa sent þúsundir hermanna að landamærunum í norðri og austri og á Krímskaga. Dmitry Kozak, fulltrúi Kreml í samskiptum við Úkraínu og aðskilnaðarsinna, greindi frá því í dag, samkvæmt frétt AFP, að friðarviðræðum verði haldið áfram 19. apríl. Hann varaði við því að ef harkan í átökunum myndi aukast myndi það vera „byrjunin á endalokum Úkraínu“ og að með því væru stjórnvöld þar ekki að skjóta sig í fótinn, heldur í andlitið.
Rússnesk stjórnvöld hafa ekki neitað því að hafa fjölgað í herliði sínu á svæðinu en hafa sagt að þau ógni ekki neinum.