Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Mæta og biðja um sprautu

Mynd: RÚV / Skjáskot
Talsvert er um að fólk, sem ekki er skráð í kórónuveirubólusetningu, mæti á bólusetningarstaði og biðji um sprautu. Ekki er orðið við slíkum beiðnum, en þegar bóluefni verður afgangs er það boðið fólki á lista farsóttarnefndar Landspítala.

„Það er mjög nákvæmlega skammtað niður hvað við höfum af efni fyrir hvern dag,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, umdæmislæknir sóttvarna og framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Þannig að við getum aldrei bólusett það fólk nema við eigum afgang og það sé komið að fólki í aldursröðinni. Að öðru leyti verður fólk bara að koma þegar það fær sitt boð.“

Sigríður Dóra segir að alltaf sé gert ráð fyrir að ekki mæti allir sem hafa verið boðaðir í bólusetningu, alltaf sé eitthvað um afföll. Blandað sé bóluefni fyrir þann fjölda sem búist sé við og það hafi einu sinni gerst að það hafi klárast áður en allir sem boðaðir höfðu verið fengu sprautuna.

Hafið þið þurft að henda bóluefni? „Nei, aldrei. það gerum við ekki. Við erum með fólk á biðlista af ýmsum ástæðum sem af einhverjum ástæðum er ekki komið að en þarf bólusetningu. þá reynum við að hringja í það fólk sem kemur þá með engum fyrirvara.“

Hverjir eru á þeim biðlista? „Til dæmis fólk sem er að fara erlendis í aðgerðir og við erum búin að fá tilkynningu frá Landspítalanum um að viðkomandi þurfi að komast í bólusetningu. Þá setjum við það bara á lista hjá okkur og bíðum þangað til við getum kallað í það. Auðvitað skiljum við allar þessar aðstæður og viljum reyna að bregðast við en við verðum fyrst að bólusetja þá sem við erum með í forgangi.“