Leynd um gögn til grundvallar reglugerð um sóttkvíarhús

Sóttkvíarhótel
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Heilbrigðisráðuneytið hefur ákveðið að leynd ríki yfir þeim gögnum sem liggja til grundvallar ákvörðun stjórnvalda um að skikka fólk frá rauðum og gráum ríkjum í sóttkvíarhús við komuna til landsins. Þetta segja Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, en velferðarnefnd Alþingis fundaði um ákvörðunina í morgun.

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði fyrir þremur dögum að ríkinu hefði ekki verið heimilt að skylda í sóttkvíarhús þá sem kærðu ákvörðunina og í kjölfarið var fólki sem þar dvaldi heimilt að fara.

Þrjú minnisblöð

Gögnin sem um ræðir eru minnisblað frá heilbrigðisráðherra til ríkisstjórnar, sameiginlegt minnisblað þriggja ráðherra til ríkisstjórnar um opinberar sóttvarnaráðstafanir á landamærum og minnisblað frá skrifstofu löggjafarmála í forsætisráðuneytinu til forsætisráðherra þar sem lagt er mat á lögmæti aðgerðanna á landamærum.

Skiptar skoðanir í velferðarnefnd

Velferðarnefnd Alþingis fundaði í morgun um þá ákvörðun ráðuneytisins að gögnin væru bundin trúnaði en fundurinn var sérstaklega boðaður í gær þegar það kom í ljós.
 
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata sem á sæti í nefndinni, segir að það hafi verið skiptar skoðanir um þetta meðal nefndarmanna. „Það komu fram sjónarmið að fólki fyndist þetta ekki boðlegt að þessi gögn væru bundin trúnaði og fyndist það ekki standast upplýsingalög. En sumum fannst þetta í lagi,“ segir hún í samtali við fréttastofu. 

„Það voru einhverjir sem samþykktu að taka á móti gögnunum og sjá þau og segja þá ekki frá þeim, en ég gerði það ekki,“ bætir hún við. 

„En við höfum farið fram á það við í minnihlutanum, og aðrir reyndar, hluti af nefndinni, að heilbrigðisráðuneytið endurskoði þessa ákvörðun. En það er erfitt að segja til um hvort það er meiri hluti fyrir því í nefndinni, enda var þettta bara samtal. Það er alla vega alls ekki einhugur um að þetta sé í lagi,“ segir Halldóra. „Þessi gögn voru lögð fram á fundi samráðsnefndar ráðherra í aðdraganda reglugerðarsetningar um sóttkví í mars.“

„Við í Velferðarnefnd förum með ríkt eftirlitsshlutverk. Það á ekki að meina okkur að greina frá rökum stjórnvalda fyrir þessari ákvörðun, það takmarkar mjög að hversu miklu leyti við getum sinnt okkar hlutverki,“ segir hún. 

Hvað heldurðu að búi þarna að baki?

„Ég hef ekki hugmynd um það. Þetta varðar að minnsta kosti ríka almenningshagsmuni. Þau vilja leyna þessum gögnum, sem almenningur á að hafa rétt á að sjá,“ svarar hún.