Hörð kosningabarátta um besta þátt Í ljósi sögunnar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hörð kosningabarátta um besta þátt Í ljósi sögunnar

08.04.2021 - 14:52

Höfundar

Þátturinn Í ljósi sögunnar trónir oftar en ekki á toppi lista yfir vinsælustu hlaðvarpsþætti landsins. Þættirnir eru orðnir býsna margir og aðdáendur deila oft um hvaða tiltekni þáttur sé sá besti. Bjartur Aðalbjörnsson tók málin í sínar hendur og eftir ábendingar frá hlustendum þáttarins bauð hann upp á kosningu á milli 70 þátta af Í ljósi sögunnar í kosningu á Twitter sem hann kallar Á toppi sögunnar.

Eflaust hafa margir vinahópar tekist á um hvaða þáttur sé sá besti en Bjartur segist hafa verið með þessa hugmynd í kollinum í smá tíma. „Þessi hugmynd hefur þvælst í kollinum á mér í þó nokkurn tíma, líklega síðan fyrir jól. Mér fannst vera kominn tími á að taka umræðuna og kjósa um besta þáttinn. Í ljósi sögunnar eru það vinsælir þættir að ég átti von á því að þetta myndi falla vel í kramið á Twitter.”

Það reyndist vera rétt og viðtökurnar létu ekki á sér standa þegar Bjartur óskaði eftir tilnefningum fyrir besta þátt Í ljósi sögunnar og á endanum börðust 70 þættir um titilinn. „Þetta sýnir það einfaldlega hversu vinsælir þættirnir hennar Veru eru,” segir hann.

Í ljósi þess hversu margar tilnefningar bárust varð fyrirkomulagið nokkuð flókið. Þáttunum var skipt upp í riðla sem alls urðu nítján talsins, þrettán þeirra innihéldu fjóra þætti en hinir sex riðlarnir innihéldu þrjá þætti. Kosning var haldin um hvern riðil, fjórir þættir fóru upp úr fyrstu þrettán riðlunum en aðeins einn þáttur upp úr hinum sex. Kosningaþátttakan kom trúlega öllum á óvart en á þeim 12 klukkutímum sem kosningin varði, kusu hátt í 900 manns í hverjum riðli og miklar umræður sköpuðust í kjölfarið. „Því átti ég alls ekki von á. Umræðan er líka eftir því og margir svekktir að sjá sína uppáhaldsþætti detta úr leik. Keppnin hefur verið hörð á köflum og höfum við þurft að horfa á eftir prýðisþáttum falla úr keppni þegar liðið hefur á.”

Óhætt er að segja að kosningin hafi fengið góð viðbrögð og æstir aðdáendur eru duglegir að berjast fyrir málstað síns uppáhaldsþáttar. „Við erum nú stödd í 16 þátta-úrslitum og spennan magnast gríðarlega. Sumar kjósa að sniðganga keppnina eftir að þeirra uppáhaldsþættir hafa dottið út,”

Bjartur á sinn uppáhaldsþátt sem er einmitt kominn áfram í 16-þátta úrslitin. „Ég á mér marga uppáhalds og er fjögurra þátta syrpan um Kapphlaupið á Suðurpólinn þar ofarlega á lista. Þá eru Konungsmorðin í Nepal og Franklín-leiðangurinn einnig ofarlega. Ég, eins og margir, nota þættina hennar Veru sem svefnlyf og sofna oft út frá þeim. Þá vel ég mér þætti sem hafa ekki að geyma groddaralegar og hræðilega lýsingar á stórslysum og háskaför. Því verð ég að segja að tvöfaldi þátturinn um Dauðahafshandritin sé mitt uppáhald.”

Hægt er að fylgjast með og taka þátt í kosningunni á Twitter-síðu Bjarts.

Hér má sjá upphafsfærsluna þar sem kosningin var kynnt til sögunnar.

Aðdáendur taka einnig virkan þátt í umræðum og skiptar skoðanir eru á niðurstöðu kosninganna.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ellefu bestu þættir Í ljósi sögunnar