Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Herstjórnin úthýsir sendiherra Mjanmar í London

08.04.2021 - 11:10
epa09121989 Ousted Myanmarese Ambassador to the UK Kyaw Zwar Minn stands outside the Myanmar embassy in London, Britain, 08 April 2021. Diplomats loyal to the Myanmar military have seized control of the embassy in London. Ambassador Kyaw Zwar Minn who has been locked out of the embassy, has stated that the defence attache had taken over the mission. This comes two months after the military seized power in Myanmar.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sendiherra Mjanmar í London neyddist til að verja nóttinni í bíl sínum þar sem honum var ekki hleypt inn í sendiráðið í borginni. Hernaðarfulltrúi sendiráðsins og starfsfólk hliðhollt herstjórninni í Mjanmar skipaði öðru starfsfólki að yfirgefa sendiráðið í gær og tilkynnti sendiherranum að starfskrafta hans væri ekki óskað lengur og að hann væri ekki lengur fulltrúi Mjanmar á Bretlandi.

Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, hefur fordæmt framgönguna. Herinn í Mjanmar stal völdum 1. febrúar og hefur sendiherrann fráfarandi, Kyaw Zwar Minn, gagnrýnt herforingjastjórnina og krafist þess að leiðtogi landsins, Aung San Suu Kyi, verði látin laus úr haldi. Upplausnarástand ríkir í Mjanmar og hefur herinn ráðið sex hundruð almenna borgara af dögum.

Segir herstjórnina fremja valdarán í miðborg Lundúna

Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá því að sendiherrann fráfarandi hafi hvatt stjórnvöld í Bretlandi til að viðurkenna ekki nýskipaðan sendiherra herstjórnarinnar. Nær væri að senda hann aftur heim til Mjanmar. „Það var valdarán í Mjanmar í febrúar. Nú er sama staða uppi hér í miðborg Lundúna,“ sagði sendiherrann. Þá sagði hann að starfsfólki sendiráðsins hafi verið hótað öllu illu ef það myndi ekki halda áfram störfum fyrir nýja sendiherrann, sem áður var hernaðarfulltrúi sendiráðsins. 

Samkvæmt Vínarsáttmálanum um stjórnmálasamband ríkja, þá endar tímabil sendiherra í ríki formlega þegar heimaríki hans tilkynnir að svo sé til þess ríkis sem sendiherrann hefur fyrirsvar gagnvart, í þessu tilfelli Bretland. Utanríkisráðuneyti Bretlands hefur staðfest að hafa fengið tilkynningu um starfslok Kyaw Zwar Minn og greinir BBC frá því að þar hafi orðið að samþykkja ákvörðun stjórnvalda í Mjanmar. 

Raab lofar hugrekki sendiherrans fráfarandi

Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, segir í færslu á Twitter að ríkisstjórnin fordæmi aðgerðir stjórnvalda í Mjanmar í London í gær og að hann dáist að hugrekki sendiherrans. Bresk stjórnvöld ætli áfram að kalla eftir því að endir verði bundinn á valdaránið og ofbeldið sem því hafi fylgt, og eins að lýðræði verði komið á að nýju í Mjanmar.