Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heilsu Navalny hrakar hratt í fangelsi

08.04.2021 - 04:37
epa09117979 A sign reading 'Security zone' is posted on the side of the road leading to the entrance of the penal colony N2 (IK-2) where an opposition leader Alexei Navalny serves his prison term in the town of Pokrov, about 100km from Moscow, Russia, 06 April 2021. 'The Alliance of Doctors' trade union called on people who care about Navalny's health to gather near the N2 in Pokrov and demand a medical treatment for Navalny.  EPA-EFE/SERGEI ILNITSKY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Heilsu rússneska stjórnarandstæðingsins Alexei Navalny hrakar skart í fanganýlendunni að sögn Vadim Kobzev, lögmanns hans. Fréttastofa BBC hefur eftir Kobzev að Navalny sé byrjaður að missa tilfinningu í höndum og fótum. 

Navalny hóf hungurverkfall í síðustu viku til þess að krefjast almennilegrar meðferðar við verkjum í baki og fótum. Hann var færður í hjúkrunarálmu fanganýlendunnar fyrr í vikunni vegna sjúkdómseinkenna í öndunarfærum. Hann hafði þá kvartað undan stöðugum hósta og hitaköstum. Líkamshiti hans hefur lækkað síðan, var 37 stig í gær en fór upp í 39 stig á mánudag. Kobzev segir skjólstæðing sinn léttast um eitt kíló á dag vegna hungurverkfallsins.

Navalny kvartaði undan því í færslu á Instagram nýverið að fangaverðir væru að reyna að grafa undan hungurverkfallinu með því að grilla kjúkling nærri honum og koma sælgætismolum fyrir í vösum hans.

Mannréttindasamtökin Amnesty International sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þau sögðu aðstæður Navalnys í fangelsinu jafngilda pyntingum. Samtökin sögðu aðstæðurnar eiga eftir að leiða til hægfara dauðdaga Navalnys.

Lögmenn Navalnys sem hafa heimsótt hann í fangelsið segja enga lækna á fanganýlendunni. Allri heilbrigðisþjónustu er sinnt af einum bráðaliða, hefur BBC eftir þeim. Rússnesk fangelsisyfirvöld segja ekkert hæft í því að Navalny hljóti ekki viðunandi meðferð. Hann hafi fengið alla nauðsynlega heilbrigðisaðstoð.

Navalny situr inni vegna dóms um fjárdrátt frá árinu 2014. Margir telja dóminn af pólitísku bergi brotinn til þess að þagga niður í honum. Hann var á skilorði þegar hann var fluttur fárveikur til Þýskalands efitr að hafa verið byrlað taugaeitur. Hann var handtekinn við heimkomuna í febrúar vegna skilorðsbrota.