Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fólk í heimasóttkví gæti fengið heimsókn

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Fyrsta verkefni Víðis Reynissonar eftir tveggja vikna sumarfrí var að koma með tillögur um hvernig herða megi eftirlit með þeim sem eru heima í sóttkví. Starfsmenn Sjúkratrygginga Íslands eru byrjaðir að skoða nýja reglugerðina sem tekur gildi á miðnætti og forstjórinn segir hugsanlegt að bæta þurfi við nýjum herbergjum. 190 farþegar eru nú í sóttkvíarhótelinu við Þórunnartún.

Hótelið í Þórunnartúni var tekið á leigu þegar þáverandi reglugerð tók gildi 1. apríl. Hún kvað á um að allir farþegar frá skilgreindum áhættusvæðum ættu að fara í sóttkví á sóttkvíarhótelinu, óháð þjóðerni og búsetu.

Umdeild dvöl felld úr gildi

Dvölin varð strax umdeild, henni var líkt við „gúlag“ eða fangelsi og á annan í páskum komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að ekki mætti skylda fólk sem gæti verið í sóttkví heima hjá sér til að vera á sóttkvíarhótelinu. 

Því leit ný reglugerð dagsins ljós í dag. Þar er skerpt á reglum um heimasóttkví, meðal annars á fólk helst að vera eitt á dvalarstað. Sé það ekki hægt þurfa allir á staðnum að fara í sóttkví.

Þá eiga sektir að hækka fyrir að rjúfa sóttkví og fylgjast betur með þeim sem eru heima hjá sér. Sektarmálin eru á forræði ríkissaksóknara en útfærsla á eftirliti með þeim eru í sóttkví eru hjá ríkislögreglustjóra. 

Tillögum um hert eftirlit skilað á morgun

Þar fer fremstur í flokki Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, sem er snúinn aftur til starfa eftir tveggja vikna sumarfrí.  Hann þarf að hafa hraðar hendur því nýja reglugerðin tekur gildi strax á miðnætti og hann reiknar með að skila tillögunum til dómsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra strax á morgun. „Við erum ekki að tala um nein ökklabönd heldur frekar heimsóknir og símtöl og nýta tæknina enn frekar.“ 

Hann á síður von á því að það verði lögreglumenn sem komi til með að banka upp á hjá fólki.

Víðir fylgdist með því að þegar farþegavél kom til Keflavíkur í dag og segir það aðdáunarvert að fylgjast með starfsfólki leysa úr oft mjög flóknu umhverfi. 

Hingað til hafa sóttvarnaaðgerðir byggst á því að treysta fólki en Víðir segir það mat sóttvarnalæknis að það dugi ekki lengur til og því hafi hann lagt til þetta herta eftirlit. 

Mögulega þarf fleiri herbergi

Ein af stóru breytingunum í hinni nýju reglugerð er að þeir sem velja að vera á sóttkvíarhótelinu þurfa ekki greiða fyrir vistina en fyrri reglugerðin gerði ráð fyrir gjaldi upp á tíu þúsund krónur fyrir nóttina.  Fólk á jafnframt að fá að njóta útivistar, eitthvað sem var bannað á fyrstu dögum sóttkvíarhótelsins og þá á að huga sérstaklega að börnum.

Sjúkratryggingar Íslands hafa séð um að taka hótel á leigu sem síðan eru notuð sem sóttkvíarhús. María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands,  segir að samningurinn við hótelið í Þórunnartúni sé til eins mánaðar og framlengjanlegur. Starfsmenn stofnunarinnar séu nú að fara yfir hina nýju reglugerð og það sé vel hugsanlegt að bæta þurfi við fleiri herbergjum. 

Hún segir kostnaðinn við þetta miklu mun minni en kostnaðurinn við það ef faraldurinn næði sér á strik aftur, að ekki sé talað um þau óþægindi og þær þjáningar sem því myndu fylgja. „Þau hótel sem við höfum leigt hafa komið til móts við okkur og leigt okkur vel undir markaðsvirði.“

Gunnlaugur Bragi Björnsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, segir í samtali við fréttastofu að nú séu 190 manns á sóttkvíarhótelinu í Þórunnartúni og fjórir á Hallormsstað.  

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV