Færri í fangelsi hér á landi en fjölgar þó

08.04.2021 - 10:47
Mynd með færslu
Fangelsið á Hólmsheiði. Mynd: Framkvæmdasýsla ríkisins
Ísland er á lista yfir Evrópulönd þar sem föngum hefur fjölgað mest hlutfallslega. Frá Janúar 2019 til janúar 2020 fjölgaði föngum hér á landi um 11,7% og er það þriðja mesta hlutfallslega fjölgunin á eftir Möltu og Kýpur.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Evrópuráðsins á fangelsismálum sem birt var í dag. 

Ísland er þó það ríki í Evrópu sem fangelsar hlutfallslega fæsta. Hér á landi eru 45 fyrir hverja 100.000 íbúa í fangelsi, hlutfallið er aðeins hærra í Finnlandi. Þar á eftir koma Holland, Noregur og Svíþjóð.  Það land sem fangelsar hlutfallslega flesta í Evrópu er Tyrkland, þar eru 357 fangar á hverja 100.000 íbúa. Þar á eftir koma Rússar með 356 fanga á hverja 100.000. Önnur Evrópulönd með hæsta hlutfall fanga eru Georgía, Litháen, Aserbaídsjan og Tékkland.

Nærri einn af hverjum fimm föngum í Evrópu afplánar dóm vegna fíkniefnatengdra afbrota.  Hér á landi eru tæp 35% fanga með dóma fyrir slík brot. 

Þá kemst Ísland einnig á blað þegar tölfræði yfir fanga sem hafa hlotið dóma fyrir umferðarlagabrot er skoðuð.  Ísland er í öðru sæti á eftir Búlgaríu, en um 14% fanga hér hafa hlotið dóma fyrir umferðarlagabrot. Evrópumeðaltalið er um 3%. 

 

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV