Fær bætur eftir að lögregla skoðaði síma án úrskurðar

08.04.2021 - 13:55
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða karlmanni 250 þúsund krónur í miskabætur eftir að lögreglan á Suðurnesjum rannsakaði farsíma hans án úrskurðar dómstóla. Maðurinn var fyrir í fyrra dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að senda unglingsstúlku 22 skilaboð úr símanum þar sem hann hótaði því meðal annars ítrekað að birta nektarmyndir af henni. Dómurinn féll fjórum árum eftir að stúlkan lagði fram kæru á hendur manninum.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að stúlkan hafi lagt fram kæru í mars 2016 um maðurinn hefði í hótunum um að setja nektarmyndir af henni á netið ásamt því að hóta því að svipta sig lífi.  Hann var handtekinn sama dag og hald lagt á farsíma hans þar sem talið var að í honum kynnu að vera sönnunargögn. 

Hann viðurkenndi í skýrslutöku hjá lögreglu að vera með myndir af stúlkunni sem hún hefði sent honum, opnaði spjall á milli hans og stúlkunnar og eyddi því að viðstöddum rannsóknarlögreglumönnum og verjanda sínum.

Þegar lögreglan vildi fá að rannsaka símann frekar hafnaði hann að veita henni heimild til þess og neitaði að gefa upp aðgangsorð. Lögreglan tjáði honum að hún myndi freista þess að komast fram hjá læsingum sem hún síðan gerði án þess að fá dómsúrskurð.

Þegar málið kom til kasta dómstóla var talið að aðferð lögreglunnar hefði brotið gegn friðhelgi einkalífs mannsins. Hún hefði þó ekki dregið úr sönnunargildi þeirra gagna sem hefðu orðið aðgengileg þegar síminn var opnaður. Var maðurinn því dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða stúlkunni hálfa milljón í miskabætur.

Maðurinn taldi sig einnig eiga rétt á miskabótum þar sem lögreglumenn hefðu komist yfir viðkvæmar myndir og persónuleg gögn með ólögmætum hætti.  Hún hefði brotist inn í símtæki hans eftir samráð við löglærðan fulltrúa lögregluembættisins.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun lögreglunnar að láta fara fram afritun á gögnum í síma mannsins og rannsókn þeirra án samþykkis mannsins og úrskurðar dómstóla hefði verið saknæm.  Þetta hefði verið ólögmæt meingerð gegn friði mannsins og stórfellt gáleysi.  Var íslenska ríkið því dæmt til að greiða honum 250 þúsund krónur í miskabætur og rúma hálfa milljón í málskostnað. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV