Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Biden endurnýjar aðstoð Bandaríkjanna við Palestínu

epa09121078 US President Joe Biden delivers remarks on the investments in the American Jobs Plan in the South Court Auditorium of the White House, in Washington, DC, USA 07 April 2021. Vice President Kamala Harris (L) looked on as President Biden delivered remarks and answered questions about corporate tax raises.  EPA-EFE/Leigh Vogel / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, samþykkti í gær að veita Palestínu fjárhagsaðstoð sem nemur um 235 milljónum bandaríkjadala. Hann lofaði því jafnframt að þrýsta á tveggja ríkja lausn í deilu Ísraels og Palestínu. Þá sagði hann Bandaríkjastjórn ætla að leggja stofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir flóttamenn frá Palestínu að nýju til fé. Donald Trump, forveri Bidens, skar á þá aðstoð.

Bandaríska utanríkisráðuneytið greindi frá því að stofnun Sameinuðu þjóðanna verði veittar 150 milljónir dala og 75 milljónir verði lagðar til efnahagslegrar og þróunaraðstoðar á Vesturbakkanum og Gaza. Loks eru tíu milljónir dala eyrnamerktar aðgerðum í þágu friðar, að sögn AFP fréttastofunnar. 

Ísraelsstjórn lýsti vanþóknun sinni á því að Bandaríkin ætli að veita stofnun Sameinuðu þjóðanna um palestínska flóttamenn í Austurlöndum nær aðstoð. Stofnunin, UNRWA, veitir um sex milljónum flóttamanna og afkomenda þeirra húsaskjól, menntun og aðra þjónustu. Gilad Erdan, sendiherra Ísraels í Bandaríkjunum sagði að stofnunin fyrir hina svokölluðu flóttamenn ætti ekki að vera til í núverandi mynd. Ísraelsmenn telja menntunina sem flóttamennirnir hljóta innihalda áróður gegn Ísraelsríki.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV