Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 greinilegt að veiran sé enn á sveimi úti í samfélaginu. 11 smit greindust í fyrradag og þar af 6 utan sóttkvíar. Þórólfur segir smittölur gærdagsins mun skaplegri en hann hafi ekki nákvæmar tölur.
„Það eru smit þarna úti, alveg klárlega, en ekki mikið. Það getur verið að lúra þarna undir yfirborðinu í einhvern tíma áður en það brjótast út stærri hópsýkingar,“ segir Þórólfur.
Hópsmitið sem greint var frá í gær tengist ferðamanni sem sýktist af Covid í annað sinn en slíkt er afar sjaldgæft.
„Ég vona að þetta sé bara einstakt tilfelli, að við förum ekki að sjá nokkuð svona lagað því það setur hlutina í uppnám og þá þurfum við að vera með nýja nálgun. Ég myndi telja á þessu stigi að þetta væri undantekning frekar en eitthvað annað. Við þurfum að vera á varðbergi og það taka sýni af fólki með vottorð á landamærunum er algjörlega nauðsynlegt, “ segir Þórólfur.