Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vonbrigði að ekki fékkst efnisleg niðurstaða

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri-grænna, segir það ákveðin vonbrigði að ekki hafi fengist efnisleg niðurstaða í Landsrétti um reglugerð heilbrigðisráðherra um skyldudvöl á sóttkvíarhóteli sem Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi ólöglega. Hann segir ráðherra ekki þurfa að segja af sér. Ábyrgð ráðherra sé að svara skilaboðum héraðsdóms með nýrri reglugerð.

„Við munum þá væntanlega fara í það að smíða reglugerð sem passar inn í þessa túlkun Héraðsdóms á lögunum. Það er kannski ekki mikill tími til þess en vonandi verður farið í það fljótt og ég hef heimildir fyrir því úr ráðuneytinu að það sé von á minnisblaði frá sóttvarnalækni um það. Vonandi getur það gengið hratt og vel fyrir sig.“

Ólafur Þór segir lagabreytingu eitt af því sem kemur til skoðunar en telur að fyrst verði reynt að semja nýja reglugerð. „Það hefur hingað til verið mjög góð samstaða í þinginu um sóttvarnarlögin. Þau voru samþykkt með öllum greiddum atkvæðum samhljóða. Það er eitt af því sem við munum sannarlega skoða en við skulum sjá hvort sú reglugerð sem kemur væntanlega mjög fljótlega mun duga til að tryggja það ástand sem við þurfum að tryggja.“

„Engan veginn,“ svarar Ólafur Þór spurður hvort ráðherra verði að axla ábyrgð með afsögn. „Ábyrgð ráðherra er bara eins og þegar ráðherra setur reglugerð á grunni þeirra laga sem fyrir liggja. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ráðherra eins og aðrir þeir þingmenn sem samþykktu lögin töldu að þau væru fullnægjandi lagagrunnur undir þær aðgerðir sem þarf til að verjast þessum heimsfaraldri. Ábyrgð ráðherra núna er að svara þessum skilaboðum frá héraðsdómi og smíða nýja reglugerð.“

Svandís vinnur að nýrri reglugerð

Fréttastofa hefur ekki náð tali af Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra eftir að Landsréttur vísaði kæru sóttvarnalæknis frá. Hún sagðist í samtali við Fréttablaðið vinna að undirbúningi nýrrar reglugerðar ásamt sóttvarnalækni. Þar yrði reynt að ná eins og hægt er markmiðum fyrri reglugerðar. „Það sem við erum að gera núna í þessum töluðum orðum er að fara yfir mögu­­leika á því að skýra á­­kveðna þætti í reglu­­gerð sem við erum með á grund­velli gildandi laga. Sem lýtur aðal­­­lega að sam­­spili heima­­sótt­kvíar við aðra þætti. Við erum að skoða það,“ hefur Fréttablaðið eftir Svandísi.