Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Úkraína þrýstir á inngöngu í Atlantshafsbandalagið

07.04.2021 - 06:06
epa08809904 (FILE) Ukraine's President Volodymyr Zelensky ahead of a meeting with British Prime Minister Boris Johnson in 10 Downing Street, Central London, Britain, 08 October 2020 (reissued 09 November 2020). According to reports on 09 November 2020, Ukraine's President Volodymyr Zelenskyannounced on his Facebook page that he has tested positive for coronavirus.  EPA-EFE/WILL OLIVER / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, þrýsti í gær á að Atlantshafsbandalagið leggi línurnar fyrir aðild Úkraínu að bandalaginu sem fyrst. Hann sagði mikilvægan þátt í því að draga úr átökum í Donbas í austanverðri Úkraínu.

Rússar hafa fjölgað í herliði sínu norðan og austan við Úkraínu undanfarið, auk herteknu svæðanna á Krímskaga, að sögn Guardian. Stjórnin í Kreml hefur ekki gefið út hvers vegna herlið hefur verið fært þangað. Zelensky lýst í það minnsta ekki á blikuna og óskar eftir aðstoð Atlantshafsbandalagsríkja. Hann óskaði eftir því að leið verði mörkuð að inngöngu Úkraínu í samtali við Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, á mánudag, og í samtali við Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada í gær. Síðar í gær talaði hann við Jens Stoltenberg þar sem hann sagði bandalagið vera eina möguleikann til að binda enda á átökin í Donbas. Inngönguferli Úkraínu í bandalagið verði skýr skilaboð til Rússa. 

Rússar hafa ekki þrætt fyrir tilfærslur á herliði sínu. Þeir segja þó enga ógn stafa af þeim. Dimitry Peskov, talsmaður Kremlar, tjáði blaðamönnum í gær að aðild Úkraínu að Atlantshafsbandalaginu hjálpi ekki til við að draga úr átökunum. Frá sjónarhóli Rússa komi það aðeins til með að flækja vandann.
Átök hafa farið vaxandi að nýju undanfarið í austanverðri Úkraínu. Stjórnvöld í Kænugarði segja tvo hermenn hafa fallið í átökum gegn aðskilnaðarsinnum í gær og í fyrradag. Talið er að Rússar styðji þétt við bak aðskilnaðarsinna, en stjórnvöld í Kreml þvertaka fyrir það.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV