Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Það er svo ákveðið klúður“

07.04.2021 - 18:57
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Það hefði verið æskilegt að fá efnislega niðurstöðu Landsréttar um reglugerð heilbrigðisráðherra um að skikka fólk til dvalar á sóttkvíarhóteli frekar en frávísun málsins. Þetta sammælast þau Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis og þingmaður Samfylkingarinnar, og Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í velferðarnefnd, um. Helga Vala segir það klúður af hálfu yfirvalda að taka sér of langan tíma í málið.

Vilhjálmur segir mikilvægt að finna lausnir sem halda og síður ástæðu til að festa sig í því hverjir hefðu gert mistök.

Landsréttur vísaði í dag frá áfrýjun sóttvarnalæknis og því heldur gildi sínu úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur. Samkvæmt honum gátu stjórnvöld ekki skikkað fólk til dvalar á sóttkvíarhóteli.

„Það er svo ákveðið klúður,“ segir Helga Vala um að ekki hafi fengist efnisleg niðurstaða. Hún beinir sjónum sínum að yfirvöldum í þeim efnum. „Þau taka ákvörðun um að hugsa sig um í sólarhring áður en þau taka ákvörðun um að kæra, vitandi það að tíminn var ekki að vinna með þeim.“ Helga Vala segir að ef kært hefði verið strax hefði verið hægt að fá efnislegan dóm.

Helga Vala og Vilhjálmur voru í viðtali í Speglinum.

„Ég held að þetta snúist dáldið mikið um framkvæmdina, við verðum að huga að því hvernig er hægt að framkvæma sóttvarnaraðgerðir sem halda innan ramma laganna,“ sagði Vilhjálmur.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Helga Vala sagði ekki hægt að beina augum að sóttvarnalækni í þessum efnum. „Hann setur auðvitað ekki reglugerðir.“ Hann hafi aðeins komið með tillögur til heilbrigðisráðherra. „Það er auðvitað ráðuneytið sem á að kanna hvort að reglugerðir ráðherra rúmist innan laganna. Ráðherra verður að passa upp á sín valdmörk. Ef það er ekki lagastoð fyrir þessu þá getur hún ekki skrifað tiltekin verk í reglugerðir.“

Vilhjálmur segir aðalmálið ekki að ákveða hverjir hafi gert mistök. „Ég held að aðalatriðið hér sé að við erum að takast á við heimsfaraldur. Hlutirnir gerast hratt. Þetta er allt saman framandi fyrir okkur. Ég held að við eigum bara að reyna að finna lausnir til að gera framkvæmdina sem besta og kannski ekki vera að festa okkur of mikið í því hverjir gerðu mistök heldur hvernig komum við framkvæmdinni þannig að hún standist lög, líka að ná sem bestum árangri í sóttvörnum þannig að við getum farið að lifa eðlilegu lífi.“ Hann segir að tryggja verði sem bestar sóttvarnir með sem minnst íþyngjandi hætti.

Helga Vala kallar eftir löggjöf. „Ég myndi telja að það væri ráðlegt að setja lög sem heimila að ferðamenn verði skikkaðir í sóttkví. Það eru eindregin tilmæli sóttvarnalæknis að gera svo. Við verðum að tryggja landamæri okkar betur.“

Hvorki Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra né Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir gáfu færi á viðtali.