Taug komið frá varðskipi í hollenska flutningaskipið

07.04.2021 - 22:17
Skipið Eemslift Hendrika í vanda í Noregshafi.
 Mynd: NRK - nrk.is
Skipverjum norsks varðskips tókst í kvöld að koma taug í hollenska vöruflutningaskipið Eemslift Hendrika, sem rekið hefur vélarvana á Noregshafi í tvo daga.

Til stóð að reyna það á morgun en í kvöld taldi strandgæslan að hallinn á skipinu væri orðinn það mikill að ekki væri hægt að bíða með það. Slæmt veður hefur verið á þessum slóðum frá því skipið lenti í vandræðum vegna mikillar slagsíðu á annan í páskum. Veðrið var ögn skárra í kvöld og því var ákveðið að reyna að koma taug úr varðskipinu í skipið til að það sykki ekki. Það tókst í kvöld og stendur til að draga hollenska skipið áleiðis til Álasunds.

Um 350 tonn af skipaolíu og 50 tonn af díselolíu eru í skipinu og því var óttast umhverfisslys ef skipið hefði sokkið.
 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV