Stuðningur við ríkisstjórnina 20% meiri en við flokkana

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem tók við í nóvember 2017 að undangengnum síðustu Alþingiskosningum hefur aldrei orðið eins óvinsæl og síðustu fjórar ríkisstjórnir undan henni urðu. Þróun vinsælda ríkisstjórnarinnar hefur jafnframt verið jákvæðari en síðustu stjórna.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem tók við í nóvember 2017 að undangengnum síðustu Alþingiskosningum hefur aldrei orðið eins óvinsæl og síðustu fjórar ríkisstjórnir undan henni urðu. Þróun vinsælda ríkisstjórnarinnar hefur jafnframt verið jákvæðari en síðustu stjórna.

Þróun fylgis og stuðnings við ríkisstjórn

Fylgi framboða til Alþingis í Þjóðarpúlsi Gallups frá kosningum 2017 til mælinga í mars 2021.

Vinsældir ríkisstjórnarinnar haldast hins vegar ekki í hendur við fylgi stjórnarflokkanna þriggja. Á kjörtímabilinu hefur ríkisstjórnin notið að jafnaði 20 prósent meiri stuðnings en samanlagt fylgi flokkanna sem mynda hana.

Í þessari fréttaskýringu er rýnt í þróun fylgis framboða til Alþingis á kjörtímabilinu sem hófst á haustdögum 2017. Stjórnmálaflokkar eru auðkenndir með einkennislitum þeirra.

Munurinn á stuðningi við ríkisstjórnina og fylgi flokkanna hefur verið áberandi meiri síðastliðið ár en misserin þar á undan. Frá mars í fyrra hefur munurinn verið að jafnaði ríflega 28 prósent. Þann mun má að öllu leyti skýra með dvínandi vinsældum stjórnarflokkanna. Skýringarhlutfall stuðnings við ríkisstjórnina er nefnilega núll það sem af er kjörtímabilinu.

Stuðningur við ríkisstjórnina jókst hratt fyrir ári síðan, þegar kórónuveirufaraldurinn braust út á Íslandi og stjórnvöld brugðust við. Hann náði mest 61,3 prósentum í apríl 2020. Stuðningurinn minnkaði svo þegar leið á sumarið en jókst enn á ný og mældist síðast 60,5 prósent í mars 2021.

Á þessu ári sem kórónuveiran hefur litað stjórnmálin hér á landi hafa ríkisstjórnarflokkarnir samanlagt notið að jafnaði 44,9 prósenta stuðnings í Þjóðarpúlsi Gallups. Misserin þar á undan var meðaltal stuðningsins 45,0 prósent.

Þróun fylgis flokka

Fylgi framboða til Alþingis í Þjóðarpúlsi Gallups frá kosningum 2017 til mælinga í mars 2021.
Smelltu á listabókstafina til að breyta myndritinu.

Miðflokkur sveiflast mest en Flokkur fólksins minnst

Sé litið snögglega á þróun fylgis þeirra flokka sem sitja á Alþingi auk Sósíalistaflokksins, blasir við töluverð óreiða meðal meðalstórra flokka. Í síðustu mælingu Gallups sem birt var fyrir páska mældust sex flokkar með á bilinu 9,5 prósent stuðning til 12,7 prósent. Þarna skilja aðeins 3,2 prósentustig að og munurinn að miklu leyti innan skekkjumarka. Það er þess vegna erfitt að fullyrða að Samfylkingin sé vinsælli en Framsóknarflokkurinn og að Viðreisn sé vinsælli en Framsókn.

Svona mjótt á munum hefur fylgið mælst nær allt kjörtímabilið og flokkarnir skipst á sætum ef svo má að orði komast. Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt kjörtímabilið mælst vinsælastur flokka í Þjóðarpúlsi Gallups. Hann mældist síðast með 23 prósenta stuðning, en hefur verið með um 23,7 prósent að jafnaði. Hæst hefur flokkurinn mælst með um 25,8 prósenta stuðning, í október 2018.

Þróun fylgis ríkisstjórnarflokka

Fylgi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna í Þjóðarpúlsi Gallups frá kosningum 2017 til mælinga í mars 2021.

Fylgi við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn hefur sveiflast tiltölulega lítið á kjörtímabilinu. Meðalfrávik mælinga Þjóðarpúlsins á þessum flokkum frá meðaltali þeirra á kjörtímabilinu er aðeins 0,9 prósentustig. Það er lítið í samanburði við þriðja stjórnarflokkinn; Meðalfrávik mælinga á fylgi við Vinstri græn er 1,3 prósentustig, eins og hjá Samfylkingunni.

Með öðrum orðum: Stuðningur við Vinstri græn sveiflast meira í Þjóðarpúlsinum en stuðningur við hina stjórnarflokkana.

Fylgi við Miðflokkinn hefur sveiflast mest allra þeirra framboða sem mæld eru hjá Gallup. Flokkurinn hefur mælst minnst með 5,7 prósenta stuðning í kjölfar Klausturmálsins í desember 2018 og mest með 14,2 prósenta stuðning febrúar 2020. Meðalfrávik frá meðaltali Miðflokksins er 1,7 prósentustig. Fylgi við Flokk fólksins sveiflast minnst. Þetta sama meðalfrávik er þar 0,7 prósentustig.

Þróun fylgis stjórnarandstöðuflokka auk Sósíalista

Fylgi Samfylkingar, Pírata, Viðreisnar, Miðflokksins, Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins í Þjóðarpúlsi Gallups frá kosningum 2017 til mælinga í mars 2021.

Þróun fylgisins

Þegar rýnt er í þróun fylgis stjórnmálaflokka er æði margt sem þarf að hafa til hliðsjónar. Sú rýni sem er gerð hér er engan veginn tæmandi. Ekki er hægt að alhæfa að einstaka atburðir hafi haft áhrif á vinsældir framboða heldur hafa oftar en ekki margir samverkandi atburðir áhrif.

Þjóðarpúls Gallups er gerður yfir fjögurra vikna tímabil og birtur um hver mánaðamót. Oft er sagt að vika sé langur tími í pólitík, hvað þá heill mánuður. Þjóðarpúlsinn grípur þess vegna ekki endilega skoðanir fólks á einstaka atburðum, en mælir ágætlega meginstrauma samfélagsins hverju sinni.

Með það í huga er áhugavert að rýna í tvö afmörkuð tímabil á kjörtímabilinu.

Klausturbarinn

Í lok nóvember 2018 varpaði uppljóstarinn Bára Halldórsdóttir sprengju í íslenska stjórnmálaumræðu þegar Stundin birti leynilega hljóðupptöku hennar af umræðum fjögurra þingmanna Miðflokksins og tveggja þáverandi þingmanna Flokks fólksins á Klausturbar í nágrenni við þinghúsið.

Fylgisþróun 2018-2019

Þróun fylgis flokka í kringum Klausturbarsskandalinn og eftirmálar hans

Miðflokkurinn mældist með 12 prósenta stuðning í nóvembermælingu Gallups. Það var ríflega kjörfylgi flokksins og vinsældir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur voru í lægstu lægðum.

Strax í næstu mælingu sem birt var um áramótin 2018-2019 hafði fylgi Miðflokksins hrunið. Nú sögðust aðeins 5,7 prósent styðja flokkinn. Næstu mánuðir á eftir eru svo áhugaverðir í fylgissögu Miðflokksins, því strax í næstu mælingu var flokkurinn orðinn vinsælli. Þriðji orkupakkinn svokallaði var svo lagður fyrir Alþingi í apríl 2019 og flokkurinn gerði hann að sínu máli, ef svo má að orði komast og flokkurinn komst aftur inn í leikinn.

Jafn áhugavert er að skoða þróun fylgis annarra flokka á meðan Miðflokkurinn veðraði Klaustursstorminn. Fylgi við Framsóknarflokkinn tók til dæmis kipp í desembermælingunni en náði strax aftur jafnvægi. Fylgi Pírata jóks einnig.

Flokkur fólksins hefur hins vegar ekki náð sér aftur á strik eftir að Klausturmálið. Þingflokkur Flokks fólksins minnkaði um helming þegar Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason fóru yfir í Miðflokkinn. Í skoðanakönnunum hafði Flokkur fólksins mælst ítrekað með meira en fimm prósenta stuðning, en hefur aldrei komist yfir fimm prósenta múrinn síðan 2018.

Samfylkingin hafði mælst ítrekað með upp undir 20 prósenta fylgi fyrir Klausturmálið. Mál Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, komst í hámæli um leið og Klaustrið og þingmaðurinn tók sér leyfi frá þingstörfum. Á fyrri helmingi ársins 2019 minnkuðu vinsældir Samfylkingarinnar mikið. Í júlí það ár mældist flokkurinn með 13,7 prósenta stuðning sem er minnsti stuðningur við flokkinn á kjörtímabilinu.

Frá kosningum til og með júlí 2019 hafði flokkurinn um 16,8 prósenta stuðning að jafnaði í Þjóðarpúlsinum. Frá og með júlí 2019 til dagsins í dag hefur stuðningurinn verið að jafnaði 15,3 prósent.

Heimsfaraldurinn

Hitt tímabilið sem við skulum rýna sérstaklega í er heimsfaraldur kórónuveirunnar. Stuðningur við ríkisstjórnina jóks strax og gripið var til aðgerða hér á landi og hefur haldist mikill síðan.

Áhrifin á fylgi Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna voru á sama tíma nokkur. Fylgi við Vinstri græn óx úr 10,5 prósentum í janúar 2020 í 14,3 prósent í maí. Á sama tímabili fór fylgi við Sjálfstæðisflokkinn úr 21,6 prósentum í 24,6 prósent. Fylgi við Framsóknarflokkinn stóð hins vegar í stað á meðan fyrsta bylgjan reið yfir.

Fylgisþróun 2020-2021

Þróun fylgis flokka í heimsfaraldrinum.

Í haust þegar seinni bylgja ársins 2020 var að hefjast stóð stuðningur við Sjálfstæðismenn og Vinstri græn svo gott sem í stað og Framsóknarmenn tóku á rás. Í september mældist Framsóknarflokkurinn með 6,7 prósenta stuðning. Hann hefur aukist stöðugt síðan og var í síðustu mælingu 11,1 prósent.

Fylgi við Miðflokkinn hefur breyst hvað mest á undanförnu ári. Eftir flugið sem flokkurinn tók í kjölfar Klaustursmálsins minnkuðu vinsældir flokksins snarlega í fyrstu mælingu eftir að kórónuveiran greindist hér á landi og fór minnkandi þar til í febrúar á þessu ári. Þá var stuðningurinn orðinn aðeins 7,3 prósent. Í síðustu mælingunni er Miðflokkurinn með 9,5 prósenta stuðning.

Framan af leit út fyrir að Samfylkingin eða Píratar myndu sækja mest fylgi af stjórnarandstöðuflokkunum í heimsfaraldrinum. Píratar misstu flugið síðasta haust en eru enn næst vinsælasti stjórnarandstöðuflokkurinn. Samfylkingin mældist með um 15-17 prósenta stuðning framan af vetri en missti flugið hratt eftir áramót. Það má hugsanlega kenna ólgu innan flokksins vegna forvals á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmum fyrir Alþingiskosningarnar í haust.

Kosningabarátta fram undan

Svona standa leikar þegar hálft ár er til Alþingiskosninga. Þær hafa verið boðaðar laugardaginn 25. september 2021. Fylgi framboðanna á eflaust eftir að taka nokkrum breytingum í aðdraganda kosninganna enda eiga flokkarnir flestir eftir að raða frambjóðendum á lista og kynna sín stefnumál og áherslur.

Fylgi flokka í Þjóðarpúlsi Gallups

Þjóðarpúls Gallups 30. mars 2021 samanborinn við síðasta Þjóðarpúls og kosningaúrslit 2017.

D
Kosningar
25,3%
Febrúar 2021
22,9%
Mars 2021
23,0%
S
12,1%
14,4%
12,7%
V
16,9%
13,4%
12,3%
P
9,2%
12,2%
11,5%
B
10,7%
10,3%
11,1%
C
6,7%
9,4%
9,5%
M
10,9%
7,3%
9,5%
F
6,9%
4,0%
5,0%
J
0%
5,8%
5,0%

Heimild: Netkönnun sem Gallup gerði dagana 1. til 29. mars 2021. Heildarúrtaksstærð var 9.856 og þátttökuhlutfall var 53,0%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,7-1,3%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallups.

07.04.2021 - 09:36