Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stofnaði klappstýrulið til að geta dansað

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

Stofnaði klappstýrulið til að geta dansað

07.04.2021 - 12:40
„Ég kom fyrir um tveimur árum og ákvað að leita að liði sem ég gæti dansað með. Það var erfitt að finna lið þannig ég ákvað bara að stofna mitt eigið. Ég skrifaði inn á Facebook-síðu og það bara small," segir Leva Prasciunaite, klappstýra og dansari. Hún stofnaði klappstýrulið sem nú samanstendur af ellefu litháískum konum sem allar eru búsettar á Íslandi. Þær æfa 3-4 sinnum í viku en hafa lítið komið fram ennþá vegna heimsfaraldursins.

Leva hefur frá unga aldri haft brennandi áhuga á dansi og vildi gera það að atvinnu sinni hér á landi. ,,Síðan ég var lítil stelpa hef ég haft áhuga á dansi, dansinn var líf mitt alla daga og alltaf í huga mér," segir Leva.

Fyrir um ári síðan byrjaði hún að leita eftir hentugu húsnæði til danskennslu og rekur nú dansstúdíó í Engihjalla í Kópavogi þar sem hún kennir litháískum börnum dans og er einnig með kvennahópa.

,,Kærastinn minn sýnir mér mikinn stuðning og ýtir mér út í að gera það sem mig langar. Þegar maður flytur í nýtt land þá getur maður verið hræddur um að fólk skilji sig ekki. Ég sá að það var enginn annar að kenna litháiskum börnum dans þannig ég hugsaði að ég gæti gert það," segir Leva en hún segir það einnig hjálpa börnunum að læra móðurmálið sitt að hitta önnur börn með sama uppruna.