Stjórnarskipti á Grænlandi

07.04.2021 - 09:25
Myndir af Múte B. Egede, leiðtoga Inuit Ataqatigiit flokksins á Grænlandi.
 Mynd: Inuit Ataqatigiit
Vinstri flokkurinn Inuit Ataqatigiit er sigurvegari þingkosninganna á Grænlandi. Kim Kielsen, formaður landsstjórnarinnar og flokksmaður Siumut, viðurkenndi ósigur í grænlenska ríkissjónvarpinu í nótt en kjörstöðum var lokað klukkan tíu í gærkvöld að íslenskum tíma.

Inuit Ataqatigiit fékk um 37 prósent atkvæða og fær tólf sæti á grænlenska þinginu, af 31. Múte Egede, formaður flokksins, fær því líklega sjtórnarmyndunarumboðið.

Siumut, sem hefur verið stærsti flokkurinn á Grænlandi síðustu áratugi, fékk 29,4 prósent atkvæða og tíu þingmenn en um tvö þúsund atkvæðum munaði á flokkunum tveimur. Þar hafa verið innanflokksátök á kjörtímabilinu en flokkurinn bætir engu að síður við sig um tveimur prósentustigum frá síðustu kosningum.

Eitt af höfuðmálum kosningabaráttunnar var fyrirhuguð námuvinnsla í Kvanefjeldet á suðvesturhluta Grændlands. Flokksmenn í Siumut reyndust klofnir í afstöðu sinni en IA höfnuðu áformunum. Þá var deilt um nýja fiskveiðilöggjöf og byggingu alþjóðaflugvalla.

Líklegt er að Inuit Ataqatigiit reyni að mynda stjórn með Parti Naleraq, sem fékk um tólf prósent atkvæða en saman fá flokkarnir líklega sextán þingsæti, sem dugir naumlega til að mynda meirihluta.